Áfram heldur rósavínssmökkunin. Að þessu sinni prófaði ég rósavín frá Rioja, nánar til tekið frá Cune, eða CVNE eins að það heitir réttu nafni (Compania Vinicole del Norte del Espania, eða Víngerð Norður-Spánar). CVNE er tæplega 150 ára gamalt fyrirtæki sem í dag telst til virtari víngerðar Spánar, þekktar fyrir Imperial-línuna, en Imperial Gran Reserva 2004 var valið vín ársins hjá Wine Spectator árið 2013. Rósavínið þeirra er gert úr hreinu Tempranillo, þar sem safinn fékk að liggja rúman sólarhring á hýðinu til að taka í sig lit og bragð, en klárar síðan gerjunina í stáltönkum.
CVNE Rioja Rosado 2015 verður væntanlega ekki valið vín ársins en er engu að síður prýðilegt rósavín. Það er jarðarberjarautt á lit og jarðarberin koma líka vel fram í ilminum ásamt appelsínum og sumarblómum. Í munni er það frísklegt, með góða sýru og hentar vel sem fordrykkur, með salati, pasta eða fiskréttum, jafnvel pizzu. Ágæt kaup (1.999 kr).