Þó svo að það sé rósavínsveisla í gangi á landinu þá er ekki endalaust hægt að sötra rósavín – stundum þarf maður eitthvað meira og stærra, til dæmis argentínska cabernet. Þegar maður hugsar um argentínsk vín þá er það yfirleitt malbec-þrúgan sem kemur fyrst upp í hugann, enda þeirra aðalsmerki. Þeir kunna þó alveg að búa til vín úr öðrum þrúgum, s.s. Torrontes (gefur af sér góð hvítvín) og svo auðvitað Cabernet Sauvignon. Öll helstu vín Argentínu koma frá Mendoza-héraði og það á líka við um vínið sem hér um ræðir, sem kemur nánar til tekið frá Lujan de Cuyo í Mendoza. Þetta svæði er á sömu breiddargráðu og Curico í Chile, og þetta vín minnir nokkuð á cabernet sauvignon frá því svæði.
Dona Paula Estate Cabernet Sauvignon 2014 er dökkrautt, unglegt með sæmilega dýpt. Í nefinu eru kirsuber, sólber, leður, pipar, bláber, paprika og mynta. Í munni eru stöm tannín og ágæt sýra, gott berjabragð sem endist vel fram í eftirbragðið. Ágæt kaup (2.420 kr), hentar vel með nauti og lambi.