Rósavínsveislan hafin að nýju

Í fyrra gerði ég dálitla úttekt á rósavínum í vínbúðum ÁTVR.  Þetta var svo sem engin vísindaleg úttekt – ég prófaði nokkrar tegundir og var almennt sáttur við þær.  Úrvalið hefur heldur aukist síðan þá og nú er einmitt rósavínsþema í vínbúðunum og vonandi tekur nú landinn við sér og tekur vel á móti þessum fína sumardrykk.  Rósavín eru nefnilega alveg kjörinn sumardrykkur – drukkið kalt og hentar vel með flestum mat (nema kannski nautasteikum og villibráð).
Muga Rosado 2015Fyrsta vínið sem ég prófa í ár er Muga Rosado 2015. Þetta vín er gert úr þrúgunum garnacha (grenache), viura og tempranillo.  Það er gert á klassíska mátann, þ.e. safinn liggur í 12 tíma með þrúgunum og nær þannig að taka í sig smá lit, en síðan látið gerjast á eikartunnum og liggur svo í tvo mánuði á tunnum áður en það er sett á flöskur.  Þetta er fölbleikt vín – laxableikt, frískleg angan af jarðarberjum, hindberjum, grænum eplum og sítrus, vottar aðeins fyrir eikinni.  Frísklegt í munni – jarðarber, hindber, epli og smá apríkósur. Kostar 2.599 krónur í vínbúðunum, sem er líkleg aðeins í dýrari kantinum fyrir rósavín, en að mínu mati eitt af þeim bestu sem okkur bjóðast í vínbúðunum.  Góð kaup.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook