Oremus Tokaj 3 Puttonyos 2009

Síðasta vínið sem smakkað var í Master Class Vega Sicilia var annað sætvín frá hinu ungverska Oremus, sem er í eigu Vega Sicilia.  Hér er á ferðinni klassískt Tokaj-vín, gert úr hreinni Furmint, s.k. Aszú-vín.  Þetta vín er gert úr þrúgum sem hafa þornað vel upp fyrir áhrif Botrytis cinerea, eða eðalmyglu.  Þrúgurnar eru látnar liggja og gerjast í safa úr þrúgum sem ekki hafa orðið fyrir myglunni.  Orðið puttonyos segir til um hversu mikið af aszú-þrúgum er notað við gerð vínsins.  Puttony er fata sem rúmar um 25 kg af þrúgum, og 3 puttonyos þýðir að 3 slíkar fötur af þrúgum hafa farið í 136L tunnu og síðan fyllt á með vínberjasafa (e. must).  Eftir því sem meira er sett af aszú-þrúgum verða vínin sætari og bragðmeiri.  Þessi vín geta verið á bilinu 3-7 puttonyos, en sé notað meira af þrúgum kallast vínin aszúeszencia eða „essence of aszú“.  Að lokum er til natúr’eszencia, sem er safi úr aszú-þrúgum sem pressast úr þrúgunum undan þeirra eigin þunga.  Slíkur safi er sætari en hunang og gerjast ekki.
Oremus Tokaj 3 puttonyosOremus Tokaj 3 Puttonyos 2009 er ljósgullið á lit, með góðri angan af appelsínum og sætum blómum. Í munni finnur maður einnig perur, vanillu, krydd og smá sýru.  Fer vel með gæsalifur, osti og eftirréttum (ávextir, sætindi). Ágæt kaup (4.225 kr).

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook