Líklega getur maður sagt að Valbuena sé „litla“ vínið frá Vega Sicilia en það er ekkert lítið við þetta vín – þvert á móti er þetta alvöru bolti. 5° merkir að vínið hefur fengið að þroskast í 5 ár áður en það fer í sölu (sbr Gran Reserva í Rioja) – gerjun fer fram í stáltönkum en svo liggur það í tunnum úr franskri og amerískri eik, bæði nýjum og notuðum (notaðar tunnur gefa ekki frá sér jafn mikinn eikarkeim og þær nýju). Þetta vín er að mestu leyti Tempranillo (þrúgan kallast þarna Tinto Fino, en er sama þrúgan), en Merlot er blandað í það í mismiklum hlutföllum milli ára.
Vega Sicilia Valbuena 5° 2010 er dökk-blóðrautt, sýnir byrjandi þroska. Í nefinu er nýtt leður, plómur, rauð ber, timjan, hesthús, chilisulta. Góð fylling, tannínin aðeins farin að mýkjast, kirsuber og súkkulaði í góðu eftirbragðinu. Elegant og klassískt vín. Samkvæmt vef vínbúðanna kostar þetta vín 17.459 krónur (1998-árgangur)…
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]