Pintia Toro 2010

Vega Sicilia hefur einnig haslað sér völl í héraðinu Toro í norðurhluta Spánar.  Þetta hérað hefur verið í mikilli sókn í gerð gæðavína, eins og sést m.a. í vínum frá Numanthia-Termes, en vín þeirra Numanthia er líklega flaggskip þessa héraðs – alveg gríðarlega gott vín.
Pintia Toro 2010Pintia Toro 2010 er hreint Tempranillo-vín, þrúgan kallast þarna pinta de Toro og vínviðurinn er frá því fyrir daga phylloxera rótarlúsarinnar.  Jarðvegurinn er grýttur, leirkenndur inn á milli og kemur það vel fram í vínum héraðsins, sem eru kröftug og holdmikil.  Þetta vín er dökkrautt á lit, unglegt þó það sé frá 2010.  Í nefinu finnur maður kaffi, rauð ber, lakkrís og smá tjöru, eikin minnir líka aðeins á sig.  Í munni er vínið mjög stamt og þarfnast umhellingar áður en þess er neytt.  Sýran er góð og jafnvægið í fínu lagi.  Þegar vínið hefur opnað sig finnur maður áðurnefnda kaffi- og lakkrístóna.  Prýðisgott vín, fær 4 stjörnur hjá mér en er mjög nálægt því að fá hálfa til viðbótar.  Kostar um 6.000 krónur.

Vínsíðan

Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]

Vinir á Facebook