Það er fátt sem jafnast á við góða nautasteik og cabernet sauvignon – sérstaklega ef um er að ræða amerískan cabernet. Því miður eru þeir frekar sjaldséðir hér á landi, a.m.k. á viðráðanlegu verði. Þegar maður leitar að amerískum cabernet á vef Vínbúðanna koma upp 19 vörur, þar af eitt kassavín. Sum eru í dýrari kantinum (upp undir 20 þúsund), en einnig eitt undir 2.000 krónum. Mín reynsla er þó sú, að vilji maður fá gott vín þá fer maður ekki undir 3.500 krónur þegar amerískur cabernet er annars vegar.
Chateau Ste. Michelle Indian Wells Cabernet Sauvignon 2011 er fallega dökkrautt í glasi, ennþá unglegt að sjá. Það ilmar af rauðum berjum, einkum kirsuberjum, og ferskum kryddum, smá kaffi og plómum, að ógleymdri amerísku eikinni (vínið var 16 mánuði í amerískum og frönskum eikartunnum, og því eðlilegt að það skilji eitthvað eftir sig). Í munni eru tannínin ennþá aðeins stinn, hæfileg sýra og góð fylling. Súkkulaðitónar í eftirbragðinu. Fer með með góðri nautasteik.
Vínsíðan
Smelltu hér til að gefa einkunn
[Alls: 0 Meðaltal: 0]