Gerard Bertrand var ekki nema 10 ára gamall þegar faðir hans, Georges Bertrand, kynnti hann fyrir víngerð fjölskyldunnar í Domaine de Villemajou víngerðinni í Corbières, sem er stærsta svæðið í Languedoc-Roussillon. Rúmlega tvítugur þurfti hann svo að taka við víngerðinni þegar faðir hans lést, langt fyrir aldur fram. Undir stjórn Gerard hefur víngerð fjölskyldunnar dafnað vel – hann framleiðir nú vín undir eigin nafni, auk þess að vera með 5 Chateau, 2 önnur Domaine og það nýjasta, Clos d’Ora, sem hann hleypti af stokkunum fyrir 2 árum.
Íslendingar kannast vel við vín Gerard Bertrands, og líklega er Tautavel þekktast þeirra. Hér eru á ferðinni gæðavín á góðu verði, í dæmigerðum Languedoc-stíl – frískleg, krydduð og ávaxtarík.
Gerard Bertrand Tautavel Grand Terroir 2013 er gert úr Grenache, Syrah og Carignan, sem eru algengustu þrúgurnar í Languedoc. Það er rúbínrautt á lit, með góða dýpt, fallegir taumar. Unglegt. Í nefinu finnur maður rauð ber, plómur, timjan, graslauk og pipar. Það er frísklegt í munni, gott jafnvægi, og berjakeimurinn fyllir vel í eftirbragðið. Mjög gott vín á góðu verði (2.899 kr)