Vín ársins – áramótauppgjör Vínsíðunnar

Það hefur verið venja hér á Vínsíðunni að líta um öxl um áramót, gera upp liðið ár og útnefna Vín ársins.
Árið 2015 var í heildina séð ágætt ár hjá Vínsíðunni.  Umferð um síðuna jókst jafnt og þétt eftir því sem leið á árið en umferðin er þó augljóslega í takti við framtakssemi mína og hversu duglegur ég er að skrifa víndóma og fréttir úr vínheiminum.
Á þessu ári voru skráðir 55 víndómar á Vínsíðuna (19 hvít, 31 rautt og 5 rósa) en auk þess voru um 130 vín til viðbótar blindsmökkuð eða prófuð á vínkynningum.  Upp úr stendur viðamikil blindsmökkun sé ég réðst í með góðum stuðningi vínbirgja og dyggri aðstoð Smíðaklúbbsins, til að velja besta kassavínið í Vínbúðunum.  Niðurstaða þessarar smökkunar var sú að bestu rauðvínsboxin voru Masi Modello delle Venezie, Mixtus Origine Shiraz Malbec og Concha y Toro Carmenere Cabernet Sauvignon Reserva, en bestu hvítvínsboxin voru Zafrica Cape White, Torres San Valentin Parellada og Frontera Chardonnay.  Hægt er að lesa meira um bestu kassavínin með því að smella hér.
Ég tók einnig þátt í því að velja Gyllta glasið í ár, og þó ég næði aðeins að vera með annan daginn þá náði ég að smakka um 60 vín þann dag.  Óhætt er að segja að svona smakkanir, þar sem mikill fjöldi vína er smakkaður í einu, er mikið álag á bragðlaukana og hætt við að þeir séu aðeins farnir að dofna þegar kemur að síðustu víninum.  Hægt er að sjá úrslitin í Gyllta glasinu 2015 með því að smella hér.
Þegar kemur að því að velja vín ársins 2015 eru nokkur vín sem koma til greina.  Ramón Bilbao Edición Limitada Rioja 2012 er ákaflega gott vín og frábær kaup fyrir aðeins 2.699 krónur. Piccini Villa al Cortile Brunello di Montalcino 2009 vakti gríðarlega lukku hjá Vínklúbbnum, en þar sem hann er ekki kominn í sölu í Vínbúðirnar kemur hann ekki til greina að þessu sinni.  Bestu hvítvínskaupin í ár eru líklega Altos de Rioja Blanco 2014, sem kostar ekki nema 2.150 krónur, og Pata Negra Rioja Reserva 2010 kemur sterklega til greina sem bestu rauðvínskaupin á aðeins 2.299 krónur. Castello Banfi Bolgheri ASKA 2012  skoraði líka hátt hjá mér (3.649 krónur – frábær kaup) og ég var líka hrifinn af Tiki Estate Pinot Gris 2014 (2.549 krónur)
Altos Reserva 2007Vín ársins 2015 er þó Altos R Reserva 2007, sem er alveg frábært vín.  Það er dökk-fjólurautt á lit, aðeins farið að þroskast og með góða dýpt.  Í nefið kemur vanilla, súkkulaði, amerísk eik, plómur og kirsuber, og í munni er það gríðarlega þétt, með nóg af tannínum sem eru þó farin að mýkjast vel, góð fylling og bragð af rauðum berjum, súkkulaði, plómum og leðri heldur sér vel og lengi.  Frábært vín með nautasteik og villibráð (sannreyndi það í gærkvöldi).  Kostar 3.575 krónur og verða að teljast frábær kaup.
Einkunn:

Vínsíðan

Vinir á Facebook