„Þetta vín var valið besta vín í heimi hjá Wine Spectator, núna nýlega“ sagði sölumaðurinn í Fríhöfninni við grunlausan kúnna og benti á ágætan Brunello di Montalcino. Aðrir nærstaddir litu forvitnir á það sem hann var að benda á, en sennilega hafa flestir látið verðið fæla sig frá. Það eru heldur ekki margir sem kaupa vín sem kosta á sjöunda þúsund, þó það sé í Fríhöfninni. Ég leit hissa á hann og ætlaði að fara að mótmæla þessu bulli í manninum en ákvað að sleppa því þegar kúnninn ákvað að láta þetta vín eiga sig. Sennilega var það þó rangt af mér, sérstaklega þar sem ég hef áður séð og heyrt af misjafnri framkomu sölumanna í víndeild Fríhafnarinnar, og maður á ekki að láta menn komast upp með svona rangfærslur, því á endanum bitna þær á viðskiptavinunum. Þessi ágæti sölumaður hefur kannski lesið topp 100-listann svona afskaplega vitlaust, en mér finnst samt ekki til of mikils mælst að menn kynni sér aðeins þær vörur sem þeir eru að selja (honum til vorkunnar má kannski segja að annar árgangur af þessu tiltekna víni komst inn á topp 100-listann árið 2009 – þó ekki topp 10 – en það er allt og sumt).
Sem dæmi um góða sölumenn má nefna vínráðgjafana í Vínbúðunum, sem margir hverjir hafa lokið góðri menntun í vínfræðum frá Wine & Spirit Education Trust, sem er einn virtasti vínskóli í heimi. Ég er ekki alltaf sammála þeim ábendingum sem ég fengið, en mér finnst það frekar vegna þess að ég hef séð að smekkur minn fellur betur að smekk sumra vínráðgjafa en annarra. Óháð því hef ég aldrei heyrt þá fara með fleipur samanber bullið í sölumanninum í Fríhöfninni.
Fyrir nokkru var ég staddur í Lissabon í Portúgal og gekk þá fram hjá vínbúð sem ég þurfti auðvitað að skoða betur. Sölumaðurinn var mjög áhugasamur um að kynna vörur sínar, sérstaklega þar sem ég var mest að spyrja um árgangspúrtvín. Hann klifraði upp í hillur til að ná í rykfallnar flöskur til að sýna mér og auðvitað var margt sem mig langaði í, en þar sem ég var aðeins með litla handfarangurstösku í ferðinni þurfti ég frá að hverfa tómhentur úr búðinni. Þó svo að úrvalið af púrtvínu og Madeira-vínum í Vínbúðunum sé ekki mikið meira en það sem ég á í vínskápnum mínum, þá óttast ég að það muni versna enn meira ef vínsala verður gefin frjáls og færð í stórmarkaðina. Við myndum líklega einnig missa hina ágætu vínráðgjafa vínbúðanna, því ég sé ekki fyrir mér að það verði ráðgjafar í Bónus…