Í spænsku vínreglunum eru vín og héruð flokkuð samkvæmt ákveðnu kerfi sem á að endurspegla gæði vínanna. Lægst í virðingarstiganum er Vino de mesa (VdM) eða borðvín, sem getur verið úr nánast hvaða þrúgum sem er. Næst kemur Vinos de la Tierra (VdlT) eða héraðsvín, sem fylgir tilteknum reglum sem gilda fyrir það hérað sem vínið er kennt við (t.d. Andalúsía). Vino de Calidad Producido en Región Determinada (VCPRD) er næsta þrep fyrir ofan VdlT en skörinni lægra en Denominación de Origen (DO), sem er venjulegt gæðavín sem er framleitt samkvæmt gildandi reglum, og 2/3 allra vína frá Spáni falla í þennan flokk. Þar fyrir ofan er Denominación de Origen Calificada (DOCa eða DOQ) sem nær yfir svæði sem hafa langa samfellu í framleiðslu gæðavín, s.s í Rioja og Priorat. Efst í pýramídanum er svo þrep sem færri kannast við. Það kallast Denominación de Pago (DO de Pago) og nær yfir sérstaklega tilgreindar vínekrur og búgarða sem hlotið hafa alþjóðlega viðurkenningu. Þessar vínekrur eru fáar, en ein þeirra er Finca Bolandin í Navarra og þaðan koma vínin frá Pago de Cirsus.
Pago de Cirsus Vendimia Seleccionada 2011 er gert úr Tempranillo, Merlot og Syrah, og nafnið þýðir Sérvalin uppskera. Vínið er kirsuberjarautt með fjólubláum blæ, unglegt en með byrjandi þroska. Í nefið kemur strax mikill apótekaralakkrís, pipar, bláber, kaffi og súkkulaði, ásamt ögn af vanillu. í munni er vínið þétt og góðu jafnvægi, tannínin farin að mýkjast og berjabragðið nýtur sín vel. Eftirbragðið er þægilegt, með sultu og súkkulaðitónum. Tilvalið með steikum og grillmat. Einkunn: 8,5 – mjög góð kaup (2.490 kr). Líklega með betri kaupunum í Vínbúðunum um þessar mundir.