Í norður-hluta Spánar, nánar tiltekið í sýslunni Castilla y Leon, er lítið hérað sem nefnist Bierzo. Það hefur hingað til ekki verið ofarlega í umræðunni um spænska víngerð, þó svo að víngerð þar eigi sér langa sögu. Rómverjar hernumdu héraðið og námu þar gull og aðra eðalmálma úr jörðu. Þeir gróðursettu líka vínvið, líkt og víðast þar sem þeir komu, og gegndi víngerð stóru hlutverki í efnahagi héraðsins. Með hnignun Rómaveldis hnignaði einnig menning og efnahagur í héraðinu og heyrðist lítið af því um langt skeið. Í seinni tíð hefur efnahagurinn farið batnandi, meðal annars vegna aukinna vinsælda pílagrímsferða eftir Jakobsvegi (Camino de Santiago) sem liggur í gegnum Bierzo. Líkt og svo mörg önnur vínræktarhéruð á Spáni þá varð víngerð í Bierzo illa fyrir barðinu á rótarlúsinni phylloxera á 19. öld, en náði svo að rétta úr kútnum að einhverju leyti með notkun rótargræðlinga líkt og tíðkast víðast á Spáni og í Frakklandi. Bierzo hlaut sína eigin vínreglugerð (Denominación de Origen) árið 1989. Samkvæmt reglum héraðsins má aðeins nota rauðu þrúgurnar Mencia og Garnacha Tintorera og grænu þrúgurnar Doña Blanca, Godello og Palomino, en einnig hafa menn verið að þreifa sig áfram með Tempranillo, Merlot og Cabernet Sauvignon (rauðar) og Malvasía, Chardonnay og Gewürztraminer (grænar) til íblöndunar í Crianza og Reserva.
Fremstir í flokki víngerðar í Bierzo í dag eru án efa Descendientes de J. Palacios, sem er samstarfsverkefni Alvaro Palacios og frænda hans Ricardo Perez. Alvaro Palacios hefur einnig verið fremstur í flokki þeirra sem hafa verið að rífa upp víngerð í héraðinu Priorat á undanförnum árum. Þekktustu vín D.J.P. eru Pétalos og Corullon, en bæði þessi vín hafa hlotið yfir 90 stig ár eftir ár hjá Wine Spectator. Um síðustu mánaðamót kom Pétalos í sölu í vínbúðirnar, sem er mikið fagnaðarefni fyrir íslenska vínunnendur. Ég kynntist þessu víni fyrst fyrir nokkrum árum, þegar ég bjó í Svíþjóð, en 2009-árgangurinn fékk 93 stig hjá WS og lenti í 26. sæti á topp 100-lista ársins 2011. Ég varð gríðarlega hrifinn af þessu víni, sem og næstu árgöngum á eftir, en 2010-árangurinn komst líka inn á topp 100-listann árið 2012.
Descendientes de J. Palacios Pétalos 2013 er nánast hreint Mencia (2-3% af öðrum þrúgum), dökkrautt á lit, með ágæta dýpt, unglegt að sjá. Í nefið kemur strax góður sólberja- og lakkrískeimur, með hvítum pipar, leðri, plómum og eik, jafnvel smá vottur af vanillu. Í munni eru hæfileg tannín og sýra, frísklegt með gott jafnvægi, ávaxtaríkt en líka aðeins piprað. Fyllingin er góð og eftirbragðið heldur sér vel. Þetta vín er algjört nammi! Einkunn: 9,0 – frábær kaup (3.290 kr). Wine Spectator gefur þessu víni 91 stig