Einhvern veginn hefur alltaf verið auðveldara að finna rautt húsvín en hvítt, kannski vegna þess að ég drekk meira af rauðu en hvítu. Um daginn fór ég þó í vínbúðina mína og tók með 3 hvítvínsflöskur á verði sem hæfir húsvíni (2.000-2.500 kr). Vínin voru þó ekki valin alveg af handahófi, heldur tók ég vín frá framleiðendum sem ég þekki af góðu einu. Hinn ítalski Antinori framleiðir fjöldann allan af góðum vínum, meðal annars hin rómuðu Solaia, Tignanello, Guado al Tasso og Badia a Passignano (öll rauð). Villa Antinori er til bæði í rauðu og hvítu, og þar sem ég hef lengi verið ánægður með rauðvínið þá fannst mér tilvalið að prófa þá hvítu líka. Rauðvínið hefur á undanförnum árum verið að fá 87-92 stig hjá Wine Spectator, en hið hvíta hefur fengið 85 stig undanfarin ár. Ég lét þó slag standa og prófaði hvítvínið, enda er það á ágætu verði (1.999 krónur – rauðvínið kostar þúsund kall í viðbót).
Þetta vín flokkast sem IGT (Indicazione Geographica Tipica) sem er í raun næsta flokkun fyrir ofan borðvín. Flokkarnir DOC, DOCG og DOCG Riserva þykja mun fínni, sögulega séð, en eftir að vín á borð við Tignanello, svo kallaðir ofur-Toskanar, komu fram og áttu samkvæmt þágildandi reglum að flokkast sem borðvín, var regluverkinu breytt til að veita þessum vínum svigrúm. Þekktustu vín Antinori eru án efa Tignanello og Solaia, sem kostar fúlgur fjár, en þau flokkast bæði sem IGT.
Villa Antinori Toscana IGT Bianco 2013 er blandað úr Malvasia, Trebbiano, Pinot Grigio, Pinot Blanc og Riesling. Það er strágult á lit, með angan af perum, sítrónum, smá hunangi og blómum. Í munni er það þurrt, frísklegt en sítruskeimurinn er aðeins of yfirgnæfandi fyrir minn smekk og vínið virkar pínu súrt, Eftirbragðið ágætt. Einkunn: 7,0. Ágæt kaup en rauða útgáfan hefur alltaf vinninginn að mínu mati, jafnvel þó það kosti þúsund krónum meira.