Riesling-þrúgan er einhver magnaðasta þrúgan sem notuð er til víngerðar í dag. Fáar þrúgur endurspegla jafn greinilega uppruna sinn og handbragð víngerðarmannsins. Riesling getur verið allt frá brakandi þurru hvítvíni yfir í dísætt eftirréttavín og allt þar á milli. Flest hálfsæt hvítvín sem okkur standa til boða í dag eru gerð úr Riesling og margir tengja Riesling-þrúguna við slík vín. Hið dæmigerða hálfsæta hvítvín kemur frá Moseldalnum í Þýskalandi, og nýtur sín best á heitum sumardögum. Þau eru ekki mjög áfeng, oft ekki nema 8,5% að styrkleika, og nokkuð sæt á bragðið. Í nágrannalöndunum Frakklandi og Austurríki eru hvítvín úr Riesling hins vegar yfirleitt þurr og snörp á bragðið. Alsace í Frakklandi er þekkt fyrir frábær hvítvín úr Riesling, og í Austurríki eru einnig búin til frábær hvítvín úr þessari frábæru þrúgu. Einn af uppáhaldsframleiðendum mínum í Austurríki er Bründlmayer í Langenlois-hérarði, skammt frá Vínarborg. Þekktustu vín Bründlmayer eru reyndar úr þrúgunni Grüner Veltliner, sem einnig er í miklu uppáhaldi hjá mér, en það er efni í annan pistil. Vínekrur Bründlmayer liggja m.a. í Kampdalnum meðfram Dóná, og eru vínekrurnar í stöllum (Terrassen) í bröttum hlíðum dalsins. Jarðvegurinn er á köflum grýttur og rýr, en það virðist henta Riesling ágætlega.
Bründlmayer Riesling Kamptaler Terrassen 2012 er strágult og fallegt í glasi, vottar aðeins fyrir kolsýru. Í nefið koma apríkósur, ferskjur og sítrónubörkur, sumarblóm og steinefni. Í munni kemur hæfileg sýra og steinefni, sítrusbörkurinn og apríkósurnar falla vel saman og í eftirbragðinu finnur maður þægilegan eikarkeim. Vel gert vín sem fer vel með hvers kyns fiski og fuglakjöti, einnig asískum mat. Einkunn: 9,0 – frábært vín (3.256 kr).