Nær allir sem líkar við rauðvín þekkja Bordeaux-héraðið í Frakklandi, en þaðan koma mörg af bestu og þekktustu rauðvínum í heimi. Í Bordeaux eru yfir 7.000 vínframleiðendur og frá héraðinu kemur um þriðjungur allrar vínframleiðslu í Frakklandi. Vínræktarhéruðin í Bordeaux eru meðfram bökkum árinnar Gironde og er almennt talað um að vínin séu frá hægri bakkanum eða vinstri bakkanum. Hægra megin eru svæðin Libournais, Bourg og Blaye, en vinstra megin eru svæðin Graves og Médoc, sem aftur er skipt í Haut Médoc (efra Medoc) og Bas Médoc (neðra Médoc, í daglegu tali bara kallað Médoc). Innan þessara svæða eru svo minni héruð, s.s Margaux, Pauillac (bæði í Haut Médoc), Sauternes (í Graves) og Pomerol (í Libournais), og vínin þaðan eru yfirleitt kennd við þessi svæði. Þessi svæði falla undir sérstaka skilgreiningu sem kallast Appellation d’Origine Controlee og gilda sérstakar reglur um víngerð í hverju héraði, þar sem m.a. er kveðið á um hvaða þrúgur er heimilt að nota í víngerðina, hvert áfengismagnið má vera, hversu þétt má planta vínviðnum, hvenær á að uppskera þrúgurnar og svo framvegis.
Vín dagsins, Chateau Hanteillan 2011, kemur frá Haut Médoc, þó ekki frá neinu af þeim 6 þorpum sem eru skilgreind sem eigin svæði (Margaux, St-Julien, Pauillac, St-Estèphe, Listrac og Moulis) og er því einfaldlega kennt við Haut Médoc. Það hefur gæðastimpilinn Cru Bourgeois, en í þeim hópi er fjöldi vína sem ekki komst á hinn upprunalega lista frá árinu 1855, þar sem frönskum vínhúsum er skipt í gæðaflokka – sjá nánar hér, en teljast þó til gæðavína.
Chateau Hanteillan 2011 er enn ungt að sjá, fjólurautt með ágæta dýpt. Í nefið koma kirsuber og sólber, smá pipar og eik, en þegar því er þyrlað kemur fram krækiberjailmur, plómur og smá súkkulaði. Vínið er nokkuð tannískt en mér fannst sýran vera aðeins of áberandi og því ekki alveg nógu gott jafnvægi. Berjaríkt eftirbragð sem heldur sér ágætlega. Hentar vel með rauðu kjöti og grillmat. Einkunn: 7,0 (2.666 kr). Ágæt kaup, því maður fær ekki svo auðveldlega gott Bordeaux-vín undir 4-5.000 krónum.