Fyrr í vor smakkaði ég nokkur áhugaverð vín frá Tiki á Nýja-Sjálandi. Nokkrir kunningjar mínir fengu einnig að smakka þessi vín og vöktu þau nokkra hrifningu, einkum Pinot Gris. Nú eru tvö hvítvín frá Tiki komin í hillur vínbúðanna – Pinot Gris og Sauvignon Blanc. Tiki er ung víngerð – fyrstu vínin eru úr 2009-árgangnum – en árangurinn lætur ekki á sér standa. Á heimasíðu framleiðandans kemur fram að þeir framleiða einnig vín úr chardonnay og pinot noir, bæði rauðvín og rósavín, sem við fáum kannski að kynnast síðar.
Fyrr í vikunni fengum við góða gesti í mat og grilluðum tvenns konar fisk – skötusel á spjóti og þorskhnakka vafða í jamón serrano. Með þessu drukkum við fyrst William Fevre Chablis 2013, sem hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Það er fallega gullið í glasinu, unglegt, með ferskri angan af sítrónum, grænum eplum, hunangsmelónu og steinefnum. Í munni er það frísklegt með tónum af grænum eplum, eik og hunangsmelónu. Fyllingin er góð og eftirbragðið heldur sér vel. Einkunn: 7,5. Chardonnay er auðvitað kjörið með góðum fisk á borð við lax og skötusel, og þetta vín réð ágætlega við þann fisk sem við vorum með á borðum. Kostar 2.965 kr í Vínbúðunum.
Síðan opnaði ég Tiki Estate Pinot Gris 2014, sem ég var nokkuð spenntur fyrir. Það er aðeins ljósara á lit samanborið við Chablis, og vottar aðeins fyrir rauðum blæ. Í nefið kemur góður ilmur af perum, rauðum eplum og jafnvel smá appelsínuberki. Í munni er gott ávaxtabragð og góð fylling, hæfileg sýra og örlitlir kryddtónar (engifer?). Vínið vakti almenna lukku en það verður hins vegar að viðurkennast að það réð ekki jafn vel við fiskinn og chardonnayið gerði, en er væntanlega tilvalið með austurlenskum mat, aðeins krydduðum. Einkunn: 7,5 – góð kaup, kostar 2.549 kr í Vínbúðunum.