Ég hef oft fengið fyrirspurnir um það hvaða kassavín sé best. Sjálfum finnst mér gott að eiga kassavín inni í skáp til að geta gripið í við matargerð eða þegar okkur langar í eitt lítið vínglas með matnum. Líkt og aðrir hef ég oft haldið mig við sömu kassana og löngu tímabært að víkka sjóndeildarhringinn og kynna mér úrvalið betur. Ég er ekkert feiminn við að prófa ný vín í flösku, en einhvern veginn er maður oft ragur við að kaupa nýjan kassa. Kannski er verðið að hræða mann að einhverju leyti, svo og óttinn við að sitja uppi með samsvarandi 4 flöskum af víni sem maður er ekkert hrifinn af. Það er ekki oft sem maður sér víndóma um kassavín í víntímaritum og ég ákvað því að fara á stúfana og athuga hvort ekki væri hægt að ráðast í alls herjar smökkun á þeim kassavínum sem eru til sölu í vínbúðunum. Ég hafði samband við alla stærstu birgjana og falaðist eftir sýnishornum í þessa smökkun. Allir tóku þeir mjög vel í þessa umleitan mína og þegar upp var staðið var ég búinn að fá 47 kassavín í hendurnar – 19 hvít og 28 rauð! Þetta er um helmingur allra kassavína sem eru til sölu í vínbúðunum (skv. heimasíðu vínbúðanna), því miður ekki öll þau söluhæstu, en engu að síður mjög gott úrval af þeim kassavínum sem okkur standa til boða og eru birgjunum færðar bestu þakkir.
Ég hafði ákveðið að fá til liðs við mig nokkra „venjulega“ vínáhugamenn, þ.e. ekki þá sem lifa og hrærast í vínheiminum, heldur fulltrúa þeirra sem oftast kaupa kassavín. Smökkunin fór fram við tvö tilfelli, því það er heilmikið og erfitt verk að smakka svona mörg vín í einu, og fer hálf illa með bragðlaukana. Kössunum var fyrst pakkað inn í brúnan umbúðapappír þannig að meðdómarar mínir voru alveg blindir á það hvað þeir voru að smakka. Vínunum var fyrst hellt í karöflu og þaðan í glösin. Að sjálfsögðu var svo öllu spýtt í fötu, enda hefði þetta annars farið fljótlega úr böndunum. Öllum vínum var gefin einkunn á bilinu 0-10 og fyrirmæli mín einfaldlega þau að menn sögðu sína skoðun, en ég taldi reyndar óeðlilegt að vín færu mikið undir 5 í einkunn, því þá er vínið væntanlega ekki í lagi, og ætti ekki að teljast með í þessari smökkun. Meðaleinkunn dómnefndar ræður svo endanlegri einkunn hvers víns.
Einkunnadreifing var nokkuð jöfn, þar sem meðaleinkunn hvítvína var 6,3 (hæst 7,4 – lægst 5,4) og meðaleinkunn rauðvína var 6,5 (hæst 7,3 – lægst 5,1). Niðurstöðurnar komu mér að vissu leyti á óvart, þar sem vín sem ég hafði búist við að fengju góða einkunn voru ekki að falla í kramið hjá dómnefndinni og svo öfugt – vín sem ég bjóst ekki við miklu af voru að gera góða hluti. En hvað um það – hér eru niðurstöðurnar:
Bestu rauðvínsboxin
Masi Modello delle Venezie Einkunn: 7,3 (6.750 kr) | Mixtus Origine Shiraz Malbec Einkunn: 7,3 (5.298 kr) | Concha y Toro Carmenere Cabernet Sauvignon Reserva Einkunn: 7,2 (6.199 kr) |
Næst á eftir komu eftirfarandi rauðvín:
- Coste Carezzi Parziale Appassimento (6.399 kr)
- Tommasi Appassionato Graticcio (6.599 kr)
- Appassimento Originale (6.421 kr)
- Deseos Tempranillo (6.299 kr)
- Famiglia Piccini Rosso di Toscana (5.499 kr)
- J.P. Chenet Cabernet Syrah (5.999 kr)
- Vina Albali Gran Selección Tempranillo (6.215 kr)
- Barone Ricasoli Formulae (6.890 kr)
- Drostdy-Hof Shiraz Pinotage (5.799 kr)
Bestu hvítvínsboxin:
Zafrica Cape White Einkunn: 7,4 (5.199 kr) | Torres San Valentin Parellada Einkunn: 7,1 (5.399 kr) | Frontera Chardonnay Einkunn: 7,1 (5.899 kr) |
Næst á eftir komu eftirfarandi hvítvín:
- Drostdy-Hof Chardonnay Viognier (5.799 kr)
- J.P. Chenet Medium Sweet (4.799 kr)
- Mixtus Chardonnay Chenin (5.298 kr)
- Inycon Chardonnay Pinot Grigio (5.927 kr)
- Vina Maipo Sauvignon Blanc (5.598 kr)
- Giacondi Pinot Grigio (5.950 kr)
- Mezzacorona Pinot Grigio (5.999 kr)
- Sunrise Chardonnay (5.999 kr)
- Montalto Pinto Grigio (5.499 kr)
Eftirfarandi birgjar lögðu til sýnishorn í þessa smökkun og eru þeim hér færðar bestu þakkir fyrir aðstoðina:
- Bakkus
- Globus
- Karl K. Karlsson
- Mekka
- Rolf Johansen & Co
- Ölgerðin
Næsta stórverkefni verður svo að taka aftur út vínin í Fríhöfninni…