Það tilheyrir vorinu að setjast út með hvítvínsglas í hönd, en því miður höfum við þurft að bíða lengi eftir þessu vori. Undanfarnar vikur hafa þrjú hvítvín verið prófuð hér á heimilinu en láðast að fjalla um þau þar til nú.
Fyrst leit dagsins ljós Santa Ema Amplus Chardonnay Leyda 2013, sem hafði legið í kælinum í nokkrar vikur. Þessi Amplus vín hafa verið að fá góða dóma og eftir að hafa nú prófað bæði rautt og hvítt úr þessari línu get ég alveg gefið þessum vínum góð meðmæli. Vínið er ljósgult á lit, með góðri sítrus og steinefnaangan, smá eik og aðeins smjörkennt. Góð fylling og jafnvægi, heldur sér vel. Einkunn:8,5. Þetta vín fær 90 stig hjá Wine Spectator og á það fyllilega skilið, og það sem það kostar ekki nema 1.649 kr í Fríhöfninni hljóta það að teljast reyfarakaup. Því miður ekki fáanlegt í Vínbúðunum.
Næsta vín var Santa Alvara Sauvignon Blanc 2011, en það vín er eitt af litlu vínunum frá Lapostolle í Chile. Ég hafði prófað bæði Merlot og Cabernet Sauvignon úr þessari sömu línu, þokkaleg vín þar á ferð, en ég var ekki mjög hrifinn af þessu hvítvíni. Mér fannst ég finna of mikið greipaldin og meira að segja eik, sem mér finnst ekki passa við Sauvignon Blanc. Mæli frekar með rauðvínunum frá þessum framleiðanada. Einkunn: 6,0. Kostar 1.678 kr í Vínbúðunum.
Í gær prófaði ég svo Trimbach Riesling Alsace 2012. Þar er á ferðinni franskur riesling í toppklassa, og maður getur ávallt treyst á vínin frá Trimbach. Ferskjur, sítróna og smá möndlukeimur. Mjög gott jafnvægi, hæfileg sýra, örlítil sæta en telst þó vera þurrt hvítvín. Einkunn:8,5. Þetta vín fær 91 stig hjá Wine Spectator. Kostar 2.698 kr í Vínbúðunum og eru mjög góð kaup að mínu mati. Passar fullkomlega með grilluðum aspas og skinku, en gekk líka vel með hvítmygluostinum.