Já, maður gæti haldið að vorið sé komið. Ég er a.m.k. byrjaður að grilla á fullu og þá fylgir því að fá sér eitt hvítvínsglas á meðan eldamennskan fer fram og svo yfirleitt létt rauðvín með matnum. Í dag skellti ég lambakjöti á grillið og fylgdi auðvitað ofangreindum reglum. Í undirbúningum var Cadet d’Or Chardonnay 2012 hellt í glas – ljósgullið, nokkuð áberandi eikarkeimur ásamt grænum eplum og sítrónu, eikin nokkuð áberandi í munni en ágæt fylling og þokkalegt jafnvægi. Einkunn: 7,0 – prýðilegt vín fyrir ekki meiri pening (1.975 krónur í Vínbúðunum).
Með lambinu drakk ég svo gamlan kunningja – Fontanafredda Briccotondo Barbera 2013, en þetta vín keypti ég oft á meðan ég bjó í Svíþjóð. Þetta vín kemur frá Piemonte á N-Ítalíu og er gert úr Barbera-þrúgunni. Það er kirsuberjarautt, unglegt, með angan af plómum og sólberjum, smá pipar og vott af kanel. Í munni er það tannískt, ágætt jafnvægi en ekki mikil fylling og eftirbragðið mætti vera lengra. Einkunn: 7,0 – ágætiskaup (2.341 kr).
Það tilheyrir svo vorinu að grilla aspas, sem vonandi fer að skila sér í hillur íslenskra verslana á viðráðanlegu verði (sem er kannski fullmikil bjartsýni?).