Um daginn bauðst mér að taka þátt í mjög sérstakri vínsmökkun. Fulltrúi Chileanska vínframleiðandans Casa Lapostolle var staddur hér á landi og sagði frá mjög svo athyglisverðri þróunarvinnu hjá Lapostolle. Væntanlega er það svo að flestir framleiðendur eru sífellt að leita leiða til að bæta framleiðslu sína eða þróa nýjar vörur. Hjá Lapostolle er kona að nafni Andrea León sem er að skoða áhrif terroir (jarðvegur, staðsetning og loftslag) á víngerðina. Chile er, eins og flestir vita, ákaflega langt og mjótt land (um 4300 km langt en aðeins 350 km þar sem það er breiðast) og þar má finna allt frá jöklum og túndru til einnar þurrustu eyðimarkar í heimi (Atacama eyðimörkin). Vínekrur má finna víðs vegar í Chile (einna helst miðsvæðis, af skiljanlegum ástæðum) og aðstæður þar ráðast mjög af vatnsmagni á hverjum stað, en Chile er mjög þurrt land.
Vínviðurinn þarf því að mynda mjög langar rætur niður í jarðveginn til að ná í vatn, og það hefur áhrif á þrúgurnar sem vaxa á vínviðnum. Þessi tilraun, sem við fengum að kynnast, snýst um það að á nokkrum vínekrum í Chile eru búin til hrein Syrah-vín, og þau eru öll gerð á nákvæmlega sama hátt (allt frá tínslu til gerjunar til þroskunar á tunnum). Þannig er það einungis terroir sem skilur vínin að. Það var mjög áhugavert að kynnast því hvesu vel þessi áhrif skila sér í lykt og bragði vínsins. Öll voru þessu vín ungleg, ávaxtarík og frískleg, en í sumum þeirra var berjakeimurinn nokkuð sterkur, á meðan tvö þeirra voru með möndlur og meira að segja vott af kattahlandi (maður finnur það stundum í hvítvínum en ég hef aldrei fundið þá lykt af rauðvíni). Þó svo að syrah sé ekki framleidd í miklu magni í Chile þá er greinilegt að þrúgan nýtur sín vel víðast hvar í landinu og ég þarf greinilega að kynnast fleiri syrah-vínum frá Chile.
Að lokinni smökkun fengum við svo að smakka önnur vín frá Lapostolle, m.a. Chardonnay úr nýju D’Alamel-línunni, Cabernet Sauvignon úr Cuvee Alexander-línunni og að lokum sjálft flaggskipið, Clos Apalta 2009, sem fékk 96 punkta hjá Wine Spectator – mikil og margslungin angan af plómum, kirsuberjum og kaffi, smá vanilla og krydd. Gríðarlega þétt og gott vín.