Santa Alvara

Í hillum vínbúðanna er að finna vín frá Santa Alvara – 2 rauð og eitt hvítt.  Vínin frá Santa Alvara eru s.k. önnur lína frá Casa Lapostolle, sem er ein af betri víngerðunum í Chile (Clos Apalta var t.d. valið vín árins hjá Wine Spectator fyrir nokkrum árum).  Í svona aðra línu fara þrúgur sem ná því ekki alveg að komast í aðallínu víngerðarinnar, en það þýðir þó alls ekki að þessi vín séu eitthvað drasl. Oft má nefnilega gera ákaflega góð kaup í annari línunni og fá vel frambærileg vín á góðu verði.

Ég prófaði nýlega rauðvínin í þessari línunni.  Santa Alvara Merlot Reserva 2013 er dökkrautt og ungt að sjá, frekar lokuð lykt, en vottar fyrir krækiberjum og blóðbergi. Ekki jafn tannískt og lyktin gefur til kynna, krækiberin halda sér í bragðinu. Sæmilegt jafnvægi og fylling.  Einkunn: 7,0.  Ágæt kaup fyrir aðeins 1.678 krónur.

Santa Alvara Cabernet Sauvignon Valle Centrale 2011 er sömuleiðis dökkt og unglegt að sjá.  Áberandi berjakeimur, grænn pipar, vottur af útihúsum. Mikið berjabragð, en vínið skortir fyllingu og jafnvægið mætti vera betra.  Einkunn: 6,5. Kostar líka 1.678 krónur og þannig séð ekki svo slæm kaup, þó ég myndi velja Merlot fram yfir þetta vín.
 

Vinir á Facebook