Besta kassavínið í bænum?

Veneto á Ítalíu er þekktast fyrir Amarone og ripasso-vínin, en þaðan koma líka mörg önnur góð vín, meðal annars Appassimento originale vino rosso.  Þetta vín er ekkert ósvipað Amarone-vínum að gerð, en bæði vínin eru gerð úr þurrkuðum þrúgum.  Þrúgurnar í Amarone eru þurrkaðar á geymsluloftum en þrúgurnar í Appassimento er látnar þorna á vínviðnum þar til þær hafa misst um helminginn af vökvamagninu.  Þrúgurnar eru yfirleitt þær sömu og í Amarone-vínum – Corvina, Molinara, Rondinella en þar geta líka verið Merlot, Negroamaro og fleiri ítalskar þrúgur.
Þetta vín kom mér skemmtilega á óvart – það er óvenjudökkt og þétt af kassavíni að vera, með áberandi plómu- og sveskjuilmi.  Tannínin eru þétt, ágæt sýra en einhvern veginn býst maður við aðeins meiri fyllingu en þetta vín býður upp á.  Það heldur sér þó vel í eftirbragðinu og þar koma líka fram súkkulaðitónar.  Einkunn: 7,5. Ein besta beljan í Ríkinu!
 

Vinir á Facebook