Síðdegis í gær kom í ljós hvaða vín hlaut útnefninguna Vín Ársins 2014 hjá Wine Spectator. Fyrir valinu varð Dow’s Vintage Port 2011 (99 stig, $80, 5,000 kassar framleiddir). Sumir lesendur blaðsins hafa gagnrýnt þetta val og vilja þeir að púrtvín séu sér í flokki þegar kemur að þessari tilnefningu. Flestir virðast þó almennt sáttir við valið. En hvers vegna varð þetta vín fyrir valinu?
Vínframleiðsla í Portúgal hefur tekið miklum framförum á undanförnum áratug, á sama tíma og vinsældir púrtvína hafa dvínað. Púrtvín hafa undanfarnar tvær aldir verið talin hápunktur vínmenningarinnar og vínin verið samnefnari fyrir þjóðarstolt Portúgals. Eins og áður segir hafa vinsældir púrtvína þó heldur dvínað undanfarin ár, en árið 2011 duttu Portúgalir í lukkupottinn.
Þessi árgangur er einn sá besti í Portúgalskri vínsögu – vaxtarskilyrði nær fullkomin á öllum sviðum og aðstæður allar eins og best verður á kosið, enda varð nánast allt að gulli í víngerð Portúgala þetta árið, einkum í Douro-héraði, þaðan sem púrtvínin koma. Árgangurinn í heild sinni hlaut 95 stig hjá Wine Spectator, og slíkar einkunnir koma ekki á hverju ári – ekki einu sinni á heimsvísu. Líkt og kunnugt er eru árgangspúrtvín aðeins gerð í bestu árunum, og af 2011-árgangnum hlutu 25 vín 95 stig eða meira hjá Wine Spectator, og þar varð Dow’s efst, með 99 stig. Vínið er að mestu leyti úr þremur þrúgum – Touriga Franca (40%), Touriga Nacional (36%) og Sousao (10%), ásamt nokkrum öðrum þrúgum í litlum hlutföllum. Þrúgurnar eru ekki troðnar með fótum vínbændanna (líkt og sumir púrtvínsframleiðendur gera enn) heldur af vélum sem líkja eftir fótatroðningi. Gerjun stóð yfir í 2-3 daga en var síðan stöðvuð með hreinum spíra til að viðhalda ávaxtabragði og sætumagni. Vínið lá svo 18 mánuði í tunnum áður en því var tappað á flöskur, og aðeins bestu tunnurnar voru valdar í árgangspúrtvínið, hinar fara í önnur púrtvín fyrirtækisins.
Verð og gæði, ásamt því að vera besta vínið í frábærum árgangi, eru ástæður þess að vín ársins 2014 er Dow’s Vintage Port 2011.
Þetta er þó ekki besta Dow’s sem framleitt hefur verið, því 2007-árgangurinn hlaut 100 stig. Sá árgangur varð þess valdandi að ég náði mér í flöskur til langtímageymslu og bíð nú spenntur eftir að börnin taki stúdentspróf (eða mótsvarandi) til að geta opnað 2007-árganginn (ég á 3 flöskur í kælinum). Svo á ég líka 2 flöskur af 2011-árgangnum, og þetta er í fyrsta skipti sem ég kemst í tæri við vín ársins. Kannski er lag að opna eina á næstu árshátíð Vínklúbbins?