Í vikunni var haldinn fundur í Vínklúbbnum. Þessi fundur var sérstæður fyrir þær sakir að í fyrsta sinn (a.m.k. í þau 16 ár sem ég hef verið félagi í klúbbnum) var gestur á fundinum, og þetta var ekki hvaða gestur sem er. Sue Hodder hefur í rúm 20 ár unnið sem víngerðarmaður (winemaker) hjá Wynns Estate í Coonawarra í Ástralíu, og frá 1998 hefur hún haft yfirumsjón með allri víngerð Wynns. Hún hefur þrívegis verið kjörinn winemaker of the year í Ástralíu, síðast árið 2010. Heimsókn hennar til Íslands á sér nokkuð langan aðdraganda, en í stuttu máli er sagan þannig að einn klúbbmeðlima fór til Ástralíu s.l. vetur, og fór þá í skoðunarferð um vínhéruð Ástralíu, þar sem hann heimsótti m.a. Wynns, sem er elsta víngerðin í Coonawarra Honum var tekið með virktum og fékk einkaleiðsögn Sue um vínekrur Wynns. Með þeim tókst vinskapur sem leiddi til þess að þegar Sue var stödd í Bretlandi á vegum Wynns nú í september ákvað hún að leggja lykkju á leið sína og heimsækja Ísland og Vínklúbbinn.
Við í Vínklúbbnum höfðum beðið þessarar heimsóknar með nokkurri eftirvæntingu og óhætt er að segja að fundurinn var ákaflega vel heppnaður. Sue hafði látið senda á undan sér kassa með öllum helstu vínum Wynns og á fundinum smökkuðum við þessi vín undir leiðsögn Sue, sem fræddi okkur einnig um starfsemi Wynns, víngerð og í hverju starf hennar sem winemaker er fólgið.
Sue fékk líka tækifæri til að kynnast landi og þjóð, því auðvitað var henni sýnt allt það besta sem landið hefur upp á að bjóða (þ.e.a.s. á suðvesturhorninu). Henni fannst þó full kallt og var helst hrædd við að fá kvef, sem myndi koma sér ákaflega illa, því að í næstu viku á hún að vera dómari á stórri vínsýningu í Ástralíu og þá er eins gott að nefið sé í lagi!
Fyrsta vínið þetta kvöld var Wynns Cabernet Shiraz Merlot 2011. Unglegt vín með angan af sólberjum, eik og myntu. Gott jafnvægi, tónar af plómum, lakkrís og myntu. Prýðilegt vín.
Næsta vín var Wynns Black Label Shiraz 2011, sem er tiltölulega nýtt vín hjá Wynns. Við vorum hálf hissa þegar við lásum á miðann á þessari flösku, því hún er með búrgúndarlaginu – ekki bordeaux líkt og venja er með ástralskan shiraz. Ástæðan kom svo í ljós þegar við smökkuðum vínið, því þetta er alls ekki dæmigerður ástralskur shiraz, heldur frekar í Rónarstíl (Rónarvín eru einmitt oft í svona flöskum, jafnvel þótt þar sé hreinn syrah á ferðinni. Þetta er dökkt og fallegt vín, auðvitað kornungt að sjá en með góða dýpt. Ilmurinn nokkuð kryddaður og piparinn áberandi, en þegar í munninn er komið koma súkkulaði og tóbak. Tannínin eru stinn, fyllingin góð og eftirbragðið langt og gott.
Næst var komið að Wynns Cabernet Sauvignon Messenger 2010. Þetta vín er single vineyard, þ.e. allar þrúgurnar í þessu víni koma af sömu vínekru. Það getur verið breytilegt frá ári til árs hvaða vínekra verður fyrir valinu og nafnið getur því verið breytilegt milli ára. Þannig var Messenger síðast fyrir valinu árið 2005.
Þá var röðin komin að Wynns Cabernet Sauvignon John Riddock 2010, sem er eitt af flaggskipum Wynns og er aðeins búið til ef árgangurinn telst vera nógu góður (þetta vín var t.d. ekki búið til árin 2000-2003 né árið 2007 ). Vínið er enn frekar ungt en með góða dýpt. Í nefið koma eik, ber, tóbak og fjólur. Í munni er mikil og góð fylling, tannínin ennþá nokkuð stinn en góð sýra á móti þeim. Eftirbragðið heldur sér vel og lengi og þar vottar fyrir smá súkkulaði. Frábært vín sem á eftir að verða stórkostlegt eftir nokkurra ára geymslu.
Síðasta vín kvöldsins var Wynns Black Label Cabernet Sauvignon 2006. Dökkrautt vín sem er kominn með örlítinn þroska og mikla dýpt. Í nefinu er áberandi eikar- og berjakeimur, með smá myntu. Í munni er vínið þétt, tannínin ennþá stinn en aðeins farin að mýkjast, mjög gott jafnvægi. Keimur af sólberjum, myntu og súkkulaði. Langt og gott eftirbragð. Hreinn unaður.
Vínin voru öll með tölu ákaflega góð og ljóst að allir viljum við fá meira af þeim. Væntanlega verð lögð inn nokkuð stór pöntun á næstunni, en það myndi auðvitað auðvelda almenningi að nálgast þessi frábæru vín ef umboðsmaður Wynns á Íslandi (Ölgerðin) myndi sinna þessum málum almennilega og sjá til þess að þessi vín væru fáanleg í hillum vínbúðanna.