Þegar maður vill gera vel við sig með mat og drykk er mikilvægt að þessi tvö atriði – matur og drykkur – passi vel saman. Þú ferð ekki á Grillmarkaðinn, pantar nautasteik og biður svo um vodka í kók með matnum, og vonandi gildir það sama heima…
Það er þó ekki alltaf auðvelt að átta sig á því hvaða vín passar með hvaða mat, en hér eru nokkur einföld ráð sem geta komið sér vel.
- Kampavín/freyðivín passa vel með öllum söltum eða djúpsteiktum mat.
- Sauvignon Blanc fer vel með súrum sósum og dressingum. Hér má einnig prófa þrúgur á borð við Vinho Verde frá Portúgal og Verdejo frá Spáni.
- Veljið Grüner Veltliner ef það er mikið af ferskum jurtum í réttinum, t.d. salatréttir (ef dressingin er ekki of súr, þá er það ráð nr. 2 sem gildir). Aðrar þrúgur sem koma til greina eru Albariño frá Spáni og Vermentino frá Ítalíu.
- Pinot Grigio fer vel með léttum fiskréttum. Einnig má prófa Pinot Gris eða Arneis frá Ítalíu (Chablis frá Frakklandi ef ekkert annað er í boði).
- Veljið Chardonnay með feitum fiski eða fiski með rjómasósu. Mjúk Chardonnay frá Kaliforníu, Chile eða Austurríki (eða Chablis) eru ljúffeng með laxi eða öðrum feitum fiskréttum.
- Veljið þurrt eða hálfþurrt Riesling með sætum og krydduðum mat. Mörg Rieslign, Gewürztraminer og Vouvray eru aðeins sæt og draga þannig úr hitanum í mörgum asískum og indverskum réttum.
- Moscato d’Asti smellpassar við ávaxtadesert. Létt-kolsýrð vín á borð við Moscato d’Asti, hálfsæt (demi-sec) kampavín og Asti Spumante magna upp ávaxtabragð í eftirréttinum, frekar en sætuna.
- Rosé Kampavín passar vel með mat, ekki bara sem fordrykkur!
- Veljið þurrt rósavín með feitum ostaréttum, s.s. brauðréttum með miklum osti. Sumir ostar passa vel með hvítvínum, aðrir með rauðvínum, en nær allir ostar passa með rósavínum, sem hafa sýru líkt og hvítvín og ávexti líkt og rauðvín.
- Pinot Noir passar vel með sveppum og svepparéttum. Dolcetto stendur sig líka vel með slíkum mat.
- Vín úr gamla heiminum er gerð fyrir mat úr gamla heiminum. Ítalskur matur kallar á ítölsk vín og spænskur matur á spænsk vín, helst úr sama héraði.
- Malbec ræður vel við sætar og bragðmiklar grillsósur. Malbec, Shiraz og Côtes-du-Rhône er höfug og bragðmikil vín sem hverfa ekki í skuggann af bragðmiklum grillsósum.
- Veljið Zinfandel með kæfum og terrinum. Ef boðið er upp á lifrarkæfu eða terrine þá eru Zinfandel, Nero d’Avola frá Ítalíu og Monastrell frá Spánu góðir kostir.
- Cabernet Sauvignon er sjálfgefið val með góðri steik. Cabernet Sauvignon og vín í Bordeaux-stíl eru frábær með steikinni.
- Syrah passar vel með krydduðum mat. Ef kjötið er mikið kryddað, veljið þá vín með miklum kryddkeim. Syrah/Shiraz frá Washington eða Ástralíu, Cabernet Franc frá Frakklandi og Xinomavro frá Grikklandi eru allt góðir kostir.