Fulltrúar ítalska vínframleiðandans Castello Banfi og Bakkusar stóðu fyrir glæsilegri vínkynningu í Perlunni í gær – Toscana experiene. Fulltrúar frá Castello Banfi kynntu þar vín fyrirtækisins og buðu gestum að smakka flest ef ekki öll þau vín sem fyrirtækið framleiðir – hvítvín, rauðvín, sætvín og grappa. Fjölmenni var mætt til að kynna sér þessi úrvalsvín og var nánast fullt út úr dyrum.
Mestan áhuga minn vöktu vínin frá Montalcino-héraði, bæði cuvée-vínin og ekki síst Brunello-vínin, en ég er orðinn ákaflega hrifinn af Brunello. Cuvée-vínin Centine, Cum Laude, SummuS og ExcelsuS (síðustu S-in eiga að vera með stórum staf) eru s.k. ofur-Toscanavín (rauðvín frá Toscana sem eru gerð úr öðrum þrúgum en Sangiovese). SummuS og ExcelsuS eru stærstu vínin í þessum hópi og bæði voru að mínu mati full ung til að drekka án þess að fá nægan tíma til að anda og nutu sín þess vegna ekki til fullnustu (bæði voru úr 2010-árgangnum). Þau hafa hins vegar allt til brunns að bera að verða hörkugóð með nokkura ára geymslu. Sömuleiðis voru Cru Montalcino-vínin Poggio alle Mura Brunello di Montalcino 2009 og Poggio all’Oro Brunello di Montalcino 2007 full af hæfileikum en ekki búin að opna sig nógu vel til að sýna sitt rétta andlit. Reyndar er ekki við öðru að búast við svona kynningar þar sem ekki gefst tími til að umhella þessum vínum öllum og leyfa þeim að anda almennilega áður en þeirra er neytt. Chianti Classico-vínin Fone alla Selva Chianto Classico og Castello Banfi Chianti Classico opin og aðgengileg. Þá verður líka að minnast á Aska Bolgheri sem er hörkugott Cabernet Sauvignon (með smá slettu af Cabernet Franc), nánast í amerískum stíl og virkilega góð kaup fyrir aðeins tæpar 3.700 krónur..
Birgir Hrafnsson og félagar hjá Bakkusi fá bestu þakkir fyrir þessa frábæru vínkynningu og ljóst að við eigum kost á fullt af gæðavínum frá Castello Banfi!