Tvö gömul og góð!

IMG_1655
Ég var bara nokkuð duglegur í eldhúsinu um síðustu helgi.  Á laugardeginum eldaði ég lambainnralæri í rauðvínssósu með sætkartöflumús og drakk með því Beronia Rioja Reserva 2009.  Vínið er enn í yngri kantingum með þægilegum keim af sólberjum, lakkrís, smá súkkulaði og eik.  Góð fylling og jafnvægi, eftirbragð sem heldur sér vel.  Passaði vel með lambakjötinu.  Einkunn: 7,5. Kostar 2.999 í vínbúðunum.
Á sunnudeginum tók ég mig til og eldaði nautalund Wellington, með smjörsteiktu rósakáli og Hasselback-kartöflum.  Ég hafði aldrei gert svona kartöflur áður en á örugglega eftir að gera þær aftur – virkilega góðar kartöflur sem hurfu fljótt ofan í börnin.  Börnin fengu reyndar sína eigin útgáfu af nautalund Wellington, því þau hafa aldrei viljað duxelle-ið (sveppamaukið) og ég sleppti því hjá þeim.  Með þessu drukkum við vín sem ég hafði ekki prófað lengi, Mouton Cadet Bordeaux 2011.
IMG_1656
Þetta er litla (minsta?) vínið frá Baron Philippe de Rothschild, og það kostar ekki nema brot af því sem stóra vínið (Chateau Mouton Rothschild) kostar.  Mouton Cadet kostar 2.199 en stóri bróðir kostar um 80.000 krónur – maður fær því 3 stóra kassa af þeim litla fyrir hverja flösku af þeim stóra!  Það er reyndar töluverður gæðamunur á þessum vínum… Mouton Cadet er auðvitað kornungt ennþá, nokkuð dökkt með sæmilega dýpt.  Nokkuð áberandi berjakeimur, leður, pipar og frönsk eik (blautt timbur).  Ekki mikil fylling, þó sæmilegt jafnvægi en eftirbragðið aðeins í styttra lagi.  Fyrir þennan pening er maður þó að fá ágætis vín.  Einkunn: 7,0. Að ósekju hefði ég þó mátt velja aðeins öflugra vín með nautalundinni…

Vinir á Facebook