Einhverjir hafa eflaust tekið eftir skrautlegum flöskum í hillum vínbúðanna og óvenjulegu nafni á vínlínu frá Vicente Gandia. Línan heitir Whatever it takes og í henni eru alls 6 mismunandi vín (3 rauð, 2 hvít og eitt rósa), og 3 þeirra eru fáanlega hér á landi. Hér eru á ferðinni vín sem seld eru til styrktar góðgerðarmálum, s.s. baráttu gegn fátækt, umhverfisvernd og velferð barna, svo nokkur dæmi séu nefnd. Flöskurnar eru skreyttar með listaverki sem þekktir listamenn hafa búið til á 30 mínútum. Má þar nefna George Clooney, David Bowie, Coldplay, Penelope Cruz og fleiri.
Þau vín sem fást hér á landi eru Cabernet Sauvignon (George Clooney), Shiraz (David Bowie) og Bobal (Coldplay). Síðastnefnda vínið er rósavín sem gert er úr Bobal-þrúgunni, en hún vex einkum í Valencia-héraði á Spáni (þetta eru allt spænsk vín). Ég hef aldrei heyrt minnst á þessa þrúgu og hef því mikinn áhuga á að smakka vín gert úr henni. Ég hef hins vegar smakkað vínið hans Clooney (Whatever it takes Cabernet Sauvignon 2012) og það kom eiginlega nokkuð þægilega á óvart. Þetta er enginn bolti – síður en svo – heldur er þetta mjög aðgengilegt vín í alla staði og við Guðrún vorum eiginlega sammála um að þetta væri mjög gott „byrjendavín“, ef svo mætti að orði komast. Það er lítið um tannín, bragðið er milt og gott með keim af berjum, vanillu og smá sultu. Einkunn: 6,5 – kostar 1.998 kr í Vínbúðunum.
Ég á svo eina flösku af Shiraz sem ég hef hugsað mér að prófa fljótlega.