Dóttir mín hafði lengi suðað í mér að hana langaði í grillaðan humar (annar tveggja uppáhaldsréttanna – hinn er blóðug nautalund, ég þori því varla að bjóða henni upp á surf’n’turf…) og við létum til leiðast um daginn. Humarinn var grillsteiktur í ofni, hvítlauksmarineraður (nema hvað) og borinn fram með risotto og hvítlaukssósu (uppskrift í Landsliðsréttabók Hagkaupa). Mér þykir ótækt að bera fram humar án þess að hafa gott hvítvín með og ég ákvað að prófa Chablis, nánar tiltekið La Larme d’Or 2012. Óli vinur minn hefur látið mikið með þetta vín og ég varð því að prófa. Satt að segja varð ég fyrir pínulitlum vonbrigðum. Ekki það að þetta sé neitt slæmt vín – alls ekki. Það réð bara varla við humarinn! Þetta er fallega gult vín, unglegt og auðvitað enginn þroski kominn af stað. Í nefið kom nokkuð áberandi sítrusbörkur, smá pera og eik, vottur af hvítum pipar og smá gras. Vínið er í ágætu jafnvægi en skortir töluvert upp á fyllinguna og leið fyrir það þegar það tókst á við humarinn og risottoið. Eftirbragðið kannski aðeins í styttra lagi og örlítið beiskt. Einkunn: 7,0. Kannski var fullmikill rjómi í matnum (smá í risottoinu og slatti af smjöri í hvítlaukssósunni) og það gæti hafa gert útslagið með að vínið réði ekki við hann. Vínið kostar 2.399 í Fríhöfninni (og færi því væntanlega á rúmlega 3.200 í Vínbúðum ÁTVR), ágætis kaup en ég held að William Fevre Chablis hefði átt meira í humarinn, sem var annars ljómandi góður.
Annars er ýmislegt á döfinni sem gæti ratað hingað á Vínsíðuna. Ég er kominn með slatta af áhugaverðum vínum í hús sem ég hlakka til að prófa og fjalla betur um. Svo er hin legendaríska árshátíð Vínklúbbsins fram undan og þar verður engu til sparað í mat né drykk. Ég er kominn með töluverðan valkvíða varðandi rauðvín kvöldsins, hvítvínið er líklega minni höfuðverkur. Meira um það síðar!