Þessa dagana er ég staddur i Svíþjóð, nánar tiltekið í Östersund. Mér finnst ég vera kominn á norðurhjara veraldar og hálfpartinn sé eftir því að hafa látið plata mig hingað en staðreyndin er þó sú að ég er á nánast sömu breiddargráðu og Reykjavík! Þegar maður er staddur í útlandinu reynir maður auðvitað að skoða sig aðeins um og það verður að segjast að það er fljótgert hérna. Ég gat auðvitað ekki stillt mig um að kíkja inn í vínbúð bæjarins og verð að segja að þeir eru bara með ágætis úrval. Það sem þó sló mig einna mest var að sjá rauðvínið Lasse Stefans Valpolicella Classico og Lasse Stefans Amarone… Lasse Stefans er hallærisleg dansiballahljómsveit (svona svipað og Geirmundur Valtýs)!
Hér í Svíþjóð virðist það nefnilega hafa komist í tísku að ýmsir misfrægir einstaklingar markaðssetja vín í eigin nafni og ætla sér auðvitað að selja það út á nafnið sitt. Fyrstur (a.m.k. sá fyrsti sem ég tók eftir) var „stjörnukokkurinn“ Per Morberg (Siggi Hall þeirra Svía, nema hann er líka ágætis leikari) með Per Morberg Collecion – sæmileg rauðvín og hvítvín sem auðvitað rokseldust og finnast nú í hillum allra vínbúða í Svíþjóð. Aðrir fylgdu auðvitað á eftir, m.a. annar „stjörnukokkur“, Tina Nordström og svo núna sjálfir Lasse Stefans!
Sjáið þið ekki fyrir ykkur að Geirmundur markaðssetji Cabernet Sauvignon og svo koma hinir – Stuðmenn Merlot, Greifarnir Pinot Noir, Siggi Hall Shiraz…