Ég hef svo sem sagt það nokkrum sinnum að ég les reglulega ameríska víntímaritið Wine Spectator, og þar sem ég er áskrifandi fæ ég líka reglulega tölvupóst með ábendingum um vín sem fá sérstaka athygli í væntanlegu blaði u.þ.b. 2-3 vikum áður en blaðið kemur út. Oft eru þetta vín sem maður hefur lítinn séns á að nálgast, ýmist vegna þess að þau fást ekki á Íslandi (eða Svíþjóð) eða vegna þess að þau eru allt of dýr fyrir mig. Stundum eru þó áhugaverð og jafnvel aðgengileg vín á þessum lista. Um daginn var m.a. Dow’s Vintage Port 2011 á listanum (en ég á einmitt 2 slíkar sem ég keypti í Malmö í haust, 99 punktar!) og í dag kom nýr listi þar sem er að finna vín sem margir lesendur Vínsíðunnar kannast við.
Concha y Toro Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon 2011 er þar í hópi vína sem fá stimpilinn highly recommended og fær 93 stig! Þetta vín kostar 3.099 krónur í Vínbúðunum og ég er þeirrar skoðunar að það sé hverrar krónu virði. Ef þú ert að leita að víni til að geyma til betri tíma þá kemur þetta vín vel til greina, því það ætti að þola eins og allt að 7-10 ára geymslu. Skellið ykkur á ‘ana!