Beaujolais-smökkun

Beaujolais2
Vín frá þekktasta framleiðanda Beaujolais í Frakklandi verða kynnt á smökkun sem haldin verður í Perlunni fimmtudaginn 10. október kl. 18-21. Smökkunin er haldin í samvinnu George Duboeuf, Bakkusar, Vínóteksins og Perlunnar.  Lesendur Vínsíðunnar eru einnig velkomnir í Perluna að prófa þessi vín.
Bernard Georges frá  George Duboeuf verður á staðnum og mun kynna vínin og héraðið fyrir gestum en hægt er að mæta hvenær sem er á milli 18 og 21 og smakka vínin.
Beaujolais er hluti af héraðinu Búrgund en þó alveg sér á parti. Hér er það ekki rauðvínsþrúgan Pinot Noir sem er ræktuð heldur þrúgan Gamay. Beaujolais skiptist í tvö meginsvæði. Suðurhlutinn er sléttari en norðurhlutinn einkennist af hólum og hæðum. Tíu svæði í norðurhlutanum eru skilgeind sem Cru og hafa sína eigin “appellation” það er það er nafn þorpsins sem stendur á miðanum en ekki héraðsins. Svæðin  heita Fleurie, Juliénas, Brouilly, Côte de Brouilly, Molin-à-Vent, Chiroubles, Morgon, Saint-Amour, Chénas og Régnié.
Duboeuf er að öðrum ólöstuðum áhrifamesti og þekktasti framleiðandi svæðisins og hefur gjarnan verið nefndur “konungurinn af Beaujolais”.
Vínin sem hægt verður að smakka í Perlunni eru:

  • Beaujolais Blanc
  • Beaujolais Rouge
  • Fleurie
  • Saint-Amour
  • Moulin-á-Vent
  • Morgon

Margir muna eflaust eftir Beaujolais Nouveau og öllu „hype“ sem því tengdist á sínum tíma – víninu flogið í einkaþotum út um allan heim og opnuð á miðnætti þriðja fimmtudags í nóvember.  Þessi vín eiga þó fátt skylt við önnur vín frá Beaujolais og hafa líklega spillt orðspori héraðsins frekar en að bæta það.  Þau vín sem hér eru á boðstólum eru ekta Beaujolais-vín, og eiga það sammerkt að hér er um að ræða gæðavín á góðu verði.
Sjáumst í Perlunni!

Vinir á Facebook