Ég hef heyrt svolítið látið með vínin frá Spy Valley og sló því til síðast þegar ég var á ferð um Keflavíkurflugvöll og kippti einni flösku af Spy Valley Pinot Noir 2010. Ég eldaði svo lambalæri um daginn (ofnsteikt að hætta Juliu Child) og ákvað að prófa þetta vín með. Vínið er auðvitað aðeins ljósleitt að sjá, en samt aðeins dekkra en hið dæmigerða pinot noir. Það er nokkuð kryddað, með sólberjum og hindberjaangan. Í munni hefur það gott jafnvægi og góða fyllingu, eftirbragðið þokkalegt. Passar vel með lambalærinu en hefði sjálfsagt notið sín betur við umhellingu. Einkunn: 8,5. Wine Spectator gefur þessu víni 92 punkta og það er vel hægt að mæla með þessu víni (3.390 kr í ÁTVR, 189 SEK í Svíþjóð, 2.369 í Fríhöfninni).
Um síðustu helgi prófuðum við líka Montes Cabernet Sauvignon Carmenere Limited Selection 2011 sem (1.999 kr í ÁTVR, 1.399 kr í Fríhöfninni, 109 SEK í Svíþjóð). Það hefur nokkuð þægilega lykt – berjakeimur, eik, krydd, vanilla og tóbak. Aðeins tannískt en góð sýra á móti. Góð kaup í þessu víni. Einkunn: 7,5