Ég komst í feitt um síðustu helgi þegar ég var ásamt Keizarafjölskyldunni boðinn í mat til dr. Leifssonar. Dr. Leifsson er kollegi minn og stefnir að því að flytja heim til Íslands í sumar. Hann hefur áður sýnt ótvíræða hæfileika í eldhúsinu og það sko varð enginn fyrir vonbrigðum. Hann gerði nefnilega prýðisgott Lasagna sem vakti mikla lukku gestanna og með þessu drukkum við Poggio al Tesoro Sondraia 2008 – ofur-Toskani sem ég hef áður prófað og líkað vel við. Þetta vín er enn frekar ungt að sjá, með góða dýpt og fallega tauma í glasinu, ilmur af plómum, sólberjum, tóbaki og vottur af kakó. Þétt og góð tannín, sýra sem tekur vel á móti, gott jafnvægi og eftirbragð sem heldur sér vel og lengi. Ákaflega vel gert vín. Einkunn: 9,0.
Við drukkum líka Chateau Mont-Redon Chateauneuf-du-Pape 2010, nýr árgangur af þessu vinsæla víni. Það er enn í yngri kantinum og mætti aðeins fá að liggja smá stund áður en það fer að njóta sín til fulls. Einkunn: 8,5.
Í eftirrétt bauð dr. Leifsson upp á franska eplaböku sem var ákaflega ljúffeng og voru henni gerð góð skil. Með bökunni bauð hann upp á Pinot Gris frá Alsace, en því miður missti ég af því hvaða vín það var (doktorinn kannski man það?).
Þegar leið á kvöldið fannst líka flaska með freyðivíni frá Chile (gæti hafa verið Casa Rivas Brut) sem kom ágætlega á óvart.
Doktornum eru færðar bestu þakkir fyrir gott kvöld!