Þeir sem þekkja Óla veðurfræðing og lesa commentin hans á Facebook hafa vafalaust tekið eftir því að hann heldur mikið upp á Concha y Toro Marques de Casa Concha Cabernet Sauvignon (eða var það kannski Carmenere?). Ég sá að það var kominn tími á að prófa eitthvað af þessu og kippti með mér einni flösku af 2010-árgangnum þegar ég fór til Falun í síðustu viku.
Ég prófaði það svo í gær (ásamt bita af Gruyere) – þetta er nokkuð dökkt vín (næstum eins og Carmenere), unglegt með sæmilega dýpt og laglega tauma. Í nefið kemur fyrst hvítur pipar, berjakeimur (kirsuber og jarðarber) ásamt vott af lakkrís. Í munni finnur maður dálítið hratbragð og smá tóbak, það er vel tannískt en hefur líka þokkalega sýru á móti. Eftirbragðið í styttra lagi. Ræður ekkert sérstaklega vel við ostinn en myndi væntanlega fara betur með steikinni. Einkunn: 8,5 – góð kaup (2.899 kr í Vínbúðinni, fæst ekki í Svíþjóð). Þess má geta að 2010-árgangurinn fær 91 punkt hjá Wine Spectator.