Það eru bara nokkrir dagar til jóla og undirbúningurinn sjálfsagt vel á veg kominn hjá flestum. Allir gera vel við sig í mat og drykk og leggja sig alla fram til að útkoman verði sem best. Mér finnst afar mikilvægt að drykkurinn falli vel að matnum og því mikilvægt að vanda valið. Við eyðum jú töluverðum fjárhæðum í matinn og því óþarfi að skemma fyrir með því að velja eitthvað billegt vín með matnum. Sjálfur ætla ég að borða franska aligæs (elduð á franskan máta með kastaníuhnetufyllingu) og því nánast gefið að drekka franskt vín með. Aligæsin er svona mitt á milli kalkúna og villigæsar í bragði og áferð og það er hægt að líta við nánast hvar sem er í Frakklandi til að finna vín sem hentar vel með gæsinni. Ég gæti valið rauðvín frá Bordeaux, Bourgogne eða Rhone (Cotes du Rhone eða Chateauneuf-du-Pape), eða jafnvel hvítvín s.s. Gewurztraminer frá Alsace. Hér koma til E. Guigal Cotes du Rhone (2.599 kr), Clos de l’Oratoire Chateauneuf-du-Pape (4.499), Joseph Drouhin Cote de Beaune (3.997), Mure Gewurztraminer Signature (2.399) eða jafnvel Viognier á borð við M. Chapoutier Viognier des Granges de Mirabel (2.999).
En hvað um annan mat? Þeir sem elda hamborgarhrygg þurfa víst aðeins að takmarka sig, því ég myndi ekki fá mér öflugan shiraz, cabernet eða vín frá Bordeaux með hryggnum. Fyrir þá sem vilja rauðvín myndi ég fyrst horfa til Spánar, t.d. Muga Reserva (3.890) eða Montecillo Reserva (2.698), eða til Ítalíu, t.d. Brolio Chianti Classico (3.349), Isole e Olena Chianti Classico (3.650) eða Villa Antinori (2.999).
Rjúpurnar (og önnur villibráð)kalla auðvitað á alvöru villibráðarvín – Shiraz eða Cabernet Sauvignon, t.d. Peter Lehmann Clancy´s (2.898), Concha y Toro Terrunyo Block 17 Carmenere (4.299), Montes Alpha Cabernet Sauvignon (2.898), Muga Reserva (3.890) nú eða eitt af mínum uppáhaldsvínum (og vín ársins á Vínsíðunni í fyrra) – Catena Malbec (2.948). Fyrir þá sem vilja bæta um betur er auðvitað hægt að prófa gott Bordeaux-vín eða Bourgogne en þá kostar það eitthvað meira.
Hvað hafið þið annars hugsað ykkur að borða og drekka? Athugasemdir vel þegnar!