Masterclass í Montes

Aurelio Montes, stofnandi Montes-fyrirtækisins í Chile og einn virtasti víngerðarmaður Suður-Ameríku (og þótt víðar væri leitað) var staddur hér á landi í vikunni og af því tilefni var efnt til smökkunar á helstu vínum fyrirtækisins. Áhugasamir gátu skráð sig hjá Vinotek.is og ég var svo heppinn að fá tvo miða á þennan viðburð og bauð Guðjóni vini mínum með.
Við mættum á Hilton Nordica ásamt 50-60 öðrum áhugasömum vínunnendum. Fyrst flutti Aurelio Montes smá kynningu á fyrirtæki sínu, sagði frá sögu þess og frá þeirri frumkvöðlavinnu sem þarf hefur verið unnin.  Meðal annars sagði hann frá því að nú er hafin framleiðsla í nýju héraði, Zapallar (um 180 km fyrir norðan höfuðborgina Santiago).  Þar eru framleidd vín í nýrri seríu sem kallast Outer Limits og fyrsta uppskeran er nú fáanleg og stóð til boða á þessari kynningu.
Aurelio leiddi svo vínsmökkunina og byrjaði á þeim hvítvínum sem boðið var upp á.  Því miður voru ekki allir búnir að fá hvítvínin í glösin þegar hann byrjaði og sú smökkun fór því fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum.
Smökkunin hófst á Montes Limited Selection Sauvignon Blanc Leyda Valley 2011. Ljóst vín, gul-græn slikja.  Sítrus- og eplakeimur áberandi.  Sýran snörp og góð.  Einkunn: 7,5. Því næst prófuðum við Montes Outer Limits Sauvignon Blanc Zapallar 2011.  Það hafði svipaða áferð og fyrsta vínið, sýran þó ekki eins snörp og örlítil beiskja í bragðinu, líkt og sítrónubörkur.  Einkunn: 7,0.  Að lokum smökkuðum við Montes Alpha Chardonnay 2010. Ljósgulluð vín, fallegt í glasi.  Feitt vín, smjörkennt með smá eikarkeim (þó ekki of áberandi).  Góð fylling og gott jafnvægi í því.  Fyrirtaks laxavín.  Einkunn: 8,0.

Þá var hafist handa við rauðvínin. Fyrst fengum við að smakka Montes Outer Limits Pinot Noir Zapallar 2011.  Þetta er unglegt vín með sæmilega dýpt, ljósleitt að sjá.  Hindberja- og blómakeimur (fjólur) í nefinu.  Í munni hefur sýran yfirhöndina, lítil tannín, þó sæmilegt body en stutt eftirbragð.  Einkunn: 7,0.  Næst var Montes Outer Limits CGM Zapallar 2011, sem er blanda Carignan (50%), Grenache (30%) og Mourvédre (20%).  Það er enn ungt en með góða dýpt.  Lyktin pínu lokuð en þó má finna smá bláber og krydd (kanil?).  Í munni er það eikað og mjög tannískt, áberandi hratkeimur en einnig berjabragð og vottar fyrir súkkulaðikeim.  Góð fylling.  Einkunn: 7,5.
Þá var röðin komin að Alpha-línunni.  Fyrst prófuðum við Montes Alpha Cabernet Sauvignon 2010 (85% Cab, 15% Merlot).  Það er ungt, með góða dýpt og fallega tauma í glasinu.  Í nefið komu sólber, súkkulaði og smá tóbak.  Það eru heilmikil tannín í þessu víni en þó aðeins farin að mýkjast, góð fylling og strúktúr í víninu.  Þolir vel 7-10 ára geymslu til viðbótar.  Einkunn: 8,0.  Eftir það prófuðum við Montes Alpha Malbec 2011 (90% Malbec, 10% Cabernet Sauvignon).  Það er auðvitað unglegt að sjá, mjög dökkt eins og Malbev er oftast.  Í nefið koma sólber, krydd, grænn pipar og mynta.  Vínið er tannískt, dálítið lokað, spurning hvort það þurfi ekki lengri geymslu. Jafnast ekki alveg á við argentínskan Malbec á borð við Alamos og Catena.  Einkunn: 7,0. Síðast í Alpha-línunni var Montes Alpha Carmenere 2010 (90% Carmenere, 10% Cabernet Sauvignon.  Unglegt, með góða dýpt.  Sólber og svartur pipar, vanilla og súkkulaði.  Í munni mikið af tannínum, góð sýra og eftirbragð sem heldur sér vel.  Villibráðarvín (þó ekki hreindýravín).  Þolir vel 2-3 ára geymslu til viðbótar.  Einkunn: 7,5.
Loks var röðin komið að flaggskipum Montes – englunum!  Fyrst var eitt af uppáhaldsvínum mínum, Montes Purple Angel 2010 (92% Carmenere, 8% Petit Verdot).  Það er hnausþykkt að sjá, mjög dökkt og mikil dýpt.  Pipar, sólber, súkkulaði, tóbak, eik,… flókin og skemmtileg lykt.  Í munninn koma fullt af tannínum og góð sýra, langt og gott eftirbragð.  Þetta er hreindýravínið í ár!.  Þolir auðveldlega 5-10 ár í geymslu. Einkunn: 9,5.  Þá var það Montes Alpha M 2009, sem er í hefðbundnum Bordeaux-stíl (80% Cabernet Sauvignon, 10% Cabernet Franc, 5% Merlot, 5% Petit Verdot).  Dökkt og fallegt vín í glasi, ilmur af sólberjum og nýju leðri en þó svolítið lokað fannst mér.  Tannískt vín, góð fylling.  Nautavín.  Þolir vel 4-7 ára geymslu.  Einkunn: 8,5.
Síðasta vín kvöldsins var Montes Folly Syrah 2010.  Miðinn á þessu víni er nokkuð frábrugðinn öðrum flöskumiðum Montes, en hann er hannaður af listamanninum Richard Steadman.  Steadman fékk að prófa vínið þegar hann var fenginn til að hann miðann og líklega hefur honum líkað vel við vínið, því útkoman varð engill (líkt og á mörgum vínum Montes) en þessi engill er hins vegar drukkinn!  Nafnið Folly mun svo vera komið af því að Aurelio Montes var sagt að það væri tóm vitleysa (e. Folly) að ætla að fara að rækta Syrah í Apalta vínekrunum, hvað þá að það yrði úr því eitthvað merkilegt vín.  Þetta er kraftalegt vín, steraköggull með smá lakkrís og plómur, þó enn dálítið lokað.  Það þarfnast nokkurra ára geymslu til viðbótar áður en það fer að njóta sín, en þá verður komið hörkugott vín.  Einkunn: 9,0.
Þetta var ákaflega skemmtilegt kvöld og ég þakka Globus hf og Steingrími Sigurgeirssyni (Vinotek) kærlega fyrir þetta góða framtak.

Vinir á Facebook