Já, nú erum við sem sagt komin heim – flutt til Íslands eftir 10 ára dvöl í Svíþjóð! Þessir flutningar eru ástæða þess að lítið hefur verið skrifað á Vínsíðuna undanfarnar vikur, því við höfum verið á faraldsfæti eftir að við afhentum húsið í Uppsala til nýrra eigenda og bíðum nú þess að geta flutt inn í nýja húsið okkar í Reykjavík (sem verður síðar í vikunni). Við höfum ekki prófað mikið af vínum á þessum tíma því við vorum tvær vikur á sólarströnd í Búlgaríu og þar var bara vín hússins í boði á hótelinu (ekki viss hvaða vín var um að ræða en það er ekki hægt að mæla með því!).
Áður en við yfirgáfum Uppsala náði ég þó að smakka Meandro do Vale Meao 2009. Fyrri árgangar höfðu fengið fína dóma og m.a. verið „húsvín“ hjá Einari Brekkan um tíma. Þegar ég sá að 2009 fékk líka fína dóma (90 punkta í Wine Spectator) þá sló ég til. Þetta er blanda Touriga Nacional (30%), Touriga Franca (30%), Tinta roriz (25%), Tinta Barocca (5%) og Sousao (5%) – allt þrúgur sem eru algengar í púrtvínum og portúgölskum rauðvínum en ekki mjög algengar utan Portúgals. Vínið er að ná góðum þroska, fallega rautt í glasinu með góða dýpt. Í nefið kemur þéttur ilmur af plómum, kirsuberjum, dökku súkkulaði og vottur af tóbaki. Vínið er í góðu jafnvægi, ekki allt of tannískt og hæfileg sýra. Gott eftirbragð sem heldur sér vel. Einkunn: 8,5 – góð kaup!
Ég var svo í Falun í síðustu viku og náði þá í eina flösku af Morellino di Scansano val delle Rose 2007 sem ég var búinn að panta mér. Þetta vín hafði einnig fengið þokkalega dóma, m.a. 89 punkta í Wine Spectator. Það var reyndar 2008 árgangurinn sem ég var spenntastur fyrir, því hann hafði fengið 92 punkta. Ég gisti svo hjá Keizaranum áður en ég kom heim til Íslands og við drukkum þessa flösku með grilluðum grísahnakka. Vínið er frísklegt, með angan af fjólum, vott af vanillu og smá tóbaki. Þetta er fyrirtaks vín en þessi árgangur stendur kannski ekki alveg undir verðinu (159 SEK). Einkunn: 7,5.
Í gærkvöldi opnuðum við Guðrún eina flösku af Wolf Blass Cabernet Sauvignon Presidents Selection sem ég hef ekki prófað í áraraðir (sennilega ekki eftir að ég flutti til Svíþjóðar). Þetta er þétt og gott vín, með sólber, leður, pipar og smá súkkulaði, enn nokkuð tannískt en með ágæta sýru, fínt jafnvægi og gott eftirbragð. Einkunn: 8,0 – Góð kaup (2.899 krónur í Fríhöfninni).
Í næstu viku tek ég loks við nýja húsinu mínu og næ vonandi að flytja inn áður en ég fer aftur út til Svíþjóðar að vinna (vinn 2 vikur í Falun áður en ég hef svo störf hér heima).