Eitt af stóru nöfnunum í vínheiminum er Angelo Gaja (sjá fyrri pistil um hann hér á vínsíðunni) og eins og gefur að skilja þá langar flesta sem hafa áhuga á vínum að prófa vín frá þessum stóru. Flest vínin eru þó þannig verðlögð að það er ekki á allra færi að eignast þau, en sem betur fer þá eru einnig til „minni“ vín frá sumum þessara framleiðanda, þar á meðal Gaja.
Mig hefur lengi langað til að prófa eitthvað af vínunum frá Gaja og það verður að viðurkennast að það er eiginlega bara eitt vín sem kemur til greina – Gaja Sito Moresco (hin eru allt of dýr). Þegar ég skrapp til Íslands í vor þá kippti ég með einnig flösku af 2010-árgangnum úr Fríhöfninni og tók með heim til mömmu og pabba. Pabbi grillaði lambakjöt og það passaði vel með víninu. Dökkt og fallegt vín, þó enn í yngri kantinum. Í nefið koma nýtt leður, svartur pipar, tóbak og sólber. Í munni eru tannínin skörp, sýran áberandi en samt gott jafnvægi þarna á milli. Vínið er þó ekki alveg búið að opna sig og í lokin kemur smá hratkeimur í annars stuttu eftirbragði. Vínið þarfnast geymslu í minnst 2-4 ár áður en það fer að njóta sín. Einkunn: 7,5.