Það er orðið ærið langt síðan ég féll fyrst fyrir Rosemount Shiraz. Reyndar hef ég verið hrifinn af flestum vínunum frá Rosemount – allt frá Shiraz i demantalínunni til Balmoral. Það verður þó að viðurkennast að ég kaupi þetta vín ekki svo oft núorðið en það slæddist ein flaska með í síðustu innkaupaferð. Ég opnaði flöskuna þegar síðari undanúrslit Eurovision hófust og varð ekki fyrir vonbrigðum með vínið frekar en fyrri daginn. Vínið er mjög dökkt að sjá, kannski ekki mjög mikil dýpt, unglegt í röndina. Í nefið koma pipar, plómur, krækiber og ögn af nýju leðri. Tannínin eru snokkuð skörp, ekki farin að mýkjast neitt að ráði og vínið nokkuð hratkennt fyrir vikið. Þægilegt vín óhætt er að mæla með – passar vel með grillmat.
Einkunn: 7,0 – góð kaup.