París

Um þar síðustu helgi var ég í París á ráðstefnu.  Þar var vor í lofti og kærkomið að geta spásserað um án þess að vera íklæddur dúnúlpu og lopavettlingum.  Ég hefði kanski betur haft húfuna og vettlingana því ég hafði verið lasinn í vikunni áður en ég fór og í París fékk ég eyrnabólgu (já – eyrnabólgu á gamals aldri) með þeim afleiðingum að hljóðhimnan sprakk á vinstra eyra og ég er enn hálf heyrnarlaus á því eyra.  Það spillti nokkuð fyrir ferðinni en ekki svo að ferðin hafi ekki verið góð.  Við drukkum nokkur góð frönsk vín (hvað annað?) en hins vegar varð ég fyrir dálitlum vonbrigðum með matinn.

Föstudagskvöldið fengum við villirbráðarterrine í forrétt og með því drukkum við Chateau Trocard Bordeaux Superior 2006 – ágætis rauðvín með berja-, tóbaks- og kryddkeim, góðri fyllingu og þokkalegu eftirbragði.  Fær þó ekki nema 84 stig í Wine Spectator. Vínið var samt mun eftirminnilegra en terrinið sem var ekkert spes.  Í aðalrétt fengum við ufsa (!) og með því drukkum við Le Bois Maillé Touraine 2010 – prýðilegt sauvignon blanc í Loire-stíl (Touraine liggur einnig meðfram Loire-ánni en aðeins innar í landinu).

Á laugardeginum var norrænt kvöld, þ.e. fulltrúar allra Norðurlandanna sem voru í för með sama fyrirtæki og við, hittust og borðuðu saman.  Maturinn var lítið spennandi (steikt kjötstykki með kartöflum) en vínið þeim mun betra – Clos de L’Oratoire des Papes Chateauneuf-du-Pape 2009 – þéttur kirsuberja- og plómukeimur með vott af kryddum og lakkrís, góð fylling og langt eftirbragð – vín í góðu jafnvægi en kannski aðeins of ungt.  Wine Spectator gefur 91 stig.

Á sunnudeginum var hefðbundið íslenskt kvöld – allir/flestir íslendingarnir á ráðstefnunni hittust og borðuðu saman.  Við fórum á stað sem virtist vera mjög gamall (eða í þannig stíl) – gamalt óslétt steinhellugólf og matargerðin einföld – forréttur af hlaðborði, aðalréttirnir (5 ólíkar steikur) grillaðir.  Salatið var hins vegar eitt það ferskasta og frumlegasta sem ég hef séð – fullt af grænmeti sett í stóra körfu og svo völdu menn sér það sem þá langaði í!  Ekki veit ég hvaða vín við drukkum þetta kvöld, því það var borið fram í könnum, og þegar könnurnar tæmdust gengu menn bara að stórri tunnu og fylltu sjálfir á könnurnar!  Þarna var líka besti maturinn í ferðinni.

Síðasta kvöldið fórum við á ágætan stað þar sem boðið var upp á snigla í forrétt og kjúkling í aðalrétt.  Þegar hér var komið var eyrnabólgan orðin alls ráðandi og ég hafði ekki rænu á að punkta niður hjá mér hvað við fengum að drekka þetta kvöld, en það var samt alveg ágætis Beaujolais frá framleiðanda sem ég kannaðist ekki við.
Í stuttu máli var ferðin sem sagt eftirminnileg en samt ekki fyrir þær sakir sem ég hafði reiknað með.  Hins vegar er augljóst mál að mig langar aftur til Parísar…

Vinir á Facebook