Hingað til hef ég ekki verið þekktur fyrir að vera mikið fyrir osta, en það er allt að breytast til hins betra. Um daginn drakk ég Chateau Mont Redon 2007 sem Einar Brekkan bauð upp á, og með þessu borðuðum við svissneskan Appenzeller sem passaði ákaflega vel með (Einar var líka með Gorgonzola sem ég er ekki enn búinn að falla fyrir).
Á föstudaginn fann ég flösku af gömlu árgangspúrtvíni í vínbúðinni minni, nánar tiltekið Fonseca Guimaraens Vintage Port 1995. Þetta vín hlaut 92 stig hjá Wine Spectator og var í 9. sæti á topp-100 listanum árið 1998! Það var því aldeilis kominn tími á að prófa árgangspúrtvín sem hefur fengið að þroskast vel og lengi. Ég veit hins vegar ekki alveg við hvaða aðstæður þetta vín hefur verið geymt því þegar ég opnaði flöskuna fór tappinn í mola og a.m.k. þriðjungurinn fór ofan í flöskuna í mylsnuformi! Nú voru góð ráð dýr. Það er jú mjög óspennandi að fá mikinn kork í glasið og þetta var of fín mylsna til að hægt væri að losna við hana með því að hella í gegnum sigti. Ég tók mig til og skvetti úr flöskunni í vaskinn þannig að korkurinn fór úr en sáralítið af víninu fylgdi með. Síðan gátum við notið vínsins með Appenzeller og Gruyere og útkoman var mjög góð! Vínið var silkimjúkt með mikla fyllingu, góður keimur af plómum, berjum og lakkrís. Einkunn: 9,0 – Bestu meðmæli