Það eru aðeins þrjár vikur til jóla og flestir sennilega farnir að huga að jólaundirbúningnum. Hápunkturinn er hjá mörgum sjálf jólamáltíðin eða máltíðirnar, því þetta eru jú margra daga veisluhöld. Vínið með matnum er auðvitað stór hluti af máltíðinni og mikilvægt að vanda vel valið, því hlutverk vínsins er að fullkomna máltíðina og þá má það ekki yfirgnæfa matinn né falla í skugga hans.
Ég hef áður skrifað um vín með jólamatnum og líka vísað í greinar eftir aðra, m.a. Stefán Guðjónsson á smakkarinn.is, og nú vil ég benda á viðtal við Steingrím Sigurgeirsson sem birtist í Morgunblaðinu og finna má á vínsíðu Steingríms, vinotek.is.
Ég ætla, líkt og í fyrra, að elda gæs á aðfangadag. Við prófuðum það í fyrra og gæsin vakti gríðarlega lukku og bókstaflega rann ofan í dæturnar (og ég er viss um að sonurinn mun taka hraustlega til matar síns þetta kvöld). Ég er reyndar ekki búinn að velja vínið sem við munum drekka með gæsinni, en þar sem gæsin er frönsk (aligæs, ekki villigæs) er kannski við hæfi að drekka franskt vín með? Ef svo er þá er óumdeilt að bestu kaupin í frönskum vínum í dag eru vín frá Rón, enda stórkostlegir árgangar komið þaðan undanfarin ár og mörg frábær vín fáanleg á góðu verði. Ég á reyndar mikið af frábærum ítölskum vínum sem gætu staðið sig vel með gæsinni…
Í forrétt erum við að spá í að hafa hörpuskel og þá langar mig að drekka kampavín með (Sancerre gæti svo sem líka passað við).
Með hangikjötinu á jóladag er bara Gewurztraminer sem kemur til greina og helst frá Alsace. Um daginn drakk ég ágætisvín frá Comte d’Isenbourg og það gæti vel komið til greina með hangikjötinu.
Ef lesendur hafa eitthvað álit á því hvað drekka eigi með jólamatnum hvet ég þá til að láta skoðun sína í ljós!