Í gær birti Wine Spectator allan topp 100-listann sinn fyrir árið 2011. Þar er margt athyglisvert að finna, m.a. er meðalverð vína á listanum 4 dollurum lægra en í fyrra, og það er eiginlega ekkert „dýrt“ vín á listanum (það er auðvitað afstætt hvenær vín eru dýr) – ódýrasta vínið kostar 9$ og það dýrasta 175$ (bara 5 vín sem kosta meira en 100$). Samkvæmt WS þá er meðalverð vína sem hljóta 90 punkta í einkunn um 70$. Vínsérfræðingar WS hafa 4 atriði í huga þegar þeir velja vín ársins – gæði (einkunn), verð, aðgengi (framleitt magn) og svo óskilgreindan spennuþátt (excitement factor) sem þýðir eiginlega að ungir framleiðendur á uppleið eru líklegri til að komast hátt á listann en gamlir, rótgrónir framleiðendur. Þannig hafa Kosta Browne verið ofarlega á listanum undanfarin ár (ungir menn í Kaliforníu sem framleiða vín úr Pinot Noir) en það verður að teljast harla ólíklegt að vín frá fyrstu yrkjunum í Bordeaux eða Domaine Romanee-Conti í Bourgogne verði nokkurn tíma fyrir valinu sem vín ársins.
Ég er búinn að renna aðeins yfir listann og það sem er mest áberandi er að það eru 40 vín frá Bandaríkjunum á meðal 100 efstu (endurspeglar væntanlega að tímaritið er amerískt og aðal lesendahópurinn væntanlega amerískur), flest frá Kaliforníu en líka eitt vín frá Nýju-Mexíkó og eitt frá New York. Frönsku vínin eru 17 og dreifast nokkuð jafnt, en helmingur frönsku vínanna kemur þó frá Rhone. Helmingur ítölsku vínanna eru frá Toscana, afgangurinn að mestu frá Valpolicella og Piemonte. Það merkilegasta við listann er þó líklega sú staðreynd að það er ekki eitt einasta vín frá Chile á listanum! Hingað til hafa alltaf verið nokkur vín þaðan á meðal 100 efstu, og ekki nema 2 ár síðan Casa Lapostolle vann með Clos Apalta.
Ég skoðaði líka hvort einhver vínanna væru fáanleg í Svíþjóð og Íslandi og ég var bara nokkuð sáttur með sænska úrvalið, en hið íslenska er líkt og undanfarin ár. Átján vín eru ýmist fáanleg eða hafa verið fáanleg í Svíþjóð (réttur eða rangur árgangur fáanlegur) en 4 vín eru eða hafa verið fáanleg á Íslandi. Að auki eru 7 framleiðendur sem eiga önnur vín fáanleg í sænskum vínbúðum en þau sem eru á listanum.
Þau vín sem eru/hafa verið fáanleg á Íslandi eru:
29. Cloudy Bay Sauvignon Blanc Marlborough 2010 (4.299 krónur)
58. Catena Zapata Malbec Mendoza 2009 (1.749 krónur í Fríhöfninni)
63. Darioush Cabernet Sauvignon Napa Valley 2007 (2006 árg til, 12.029 krónur)
77. Ayala Brut Champagne Majeur (5.999 krónur)
Hið argentínska Zapata eru augljós reyfarakaup og því ekki hægt annað en að benda öllum sem fara um Fríhöfnina að þar eru bestu kaupin í dag!
Varðandi vínin sem eru fáanleg í Svíþjóð þá ætla ég ekki að telja þau öll upp en bendi þó á nokkur sem ég tel vera góð kaup:
16. Rivetto Barolo Serralunga 2006 (73720) – 2005 árgangurinn fáanlegur á mótsvarandi 298 SEK (aðeins seldar 6 í kassa á 1788 SEK), 2006 kemur væntanlega innan skamms.
23. Bodegas Resalte de Peñafiel Ribera del Duero de Restia Crianza Selected Harvest 2004 (75319) – 218 SEK. Ég er búinn að panta þetta.
26. Descendientes de J. Palacios Bierzo Pétalos 2009 (70314) – 169 SEK. Ég er búinn að panta þetta.
29. Cloudy Bay Sauvignon Blanc Marlborough 2010 (94817) – 199 SEK
31. Castello di Monsanto Chianti Classico Riserva 2007 (71654) – 199 SEK
49. Fonterutoli Chianti Classico 2009 (32229) – 149 SEK. Ég er búinn að kaupa þetta!
58. Bodega Catena Zapata Malbec Mendoza 2009 (6562) – nú er 2008-árgangurinn í búðunum, 2009 væntanlegt innan skamms, 119 SEK.
60. Allegrini Veronese Palazzo della Torre 2008 (92219) – 2007 fáanlegt, 2008 væntanlegt, 149 SEK
72. Ravines Riesling Finger Lakes Dry 2009 (72585) – 2008 fáanlegt, 2009 væntanlegt, 149 SEK
79. Poggio al Tesoro Bolgheri Sondraia 2008 (98916) – fáanlegt í mörgum vínbúðum, 279 SEK. Þessi framleiðandi gerir einnig Bolgarello sem hefur verið húsvín hjá mér og óhætt að mæla með (aðeins 75 SEK)
81. Salomon-Undhof Riesling Qualitätswein Trocken Kremstal Undhof Kögl 2009 (99802) – fáanlegt fyrir 179 SEK
93. De Morgenzon Chenin Blanc Stellenbosch 2009 (72058) – 2008 fáanlegt fyrir 69 SEK og hér erum við líka að tala um 91 punkta vín. Ég set reyndar smá fyrirvara með þetta vín, því á heimasíðu Systembolaget er talað um að vínið sé frá Western Cape en WS talar um Stellenbosch. Hins vegar er Stellenbosch í Western Cape héraðinu og framleiðandinn tala bara um Stellenbosch á heimasíðu sinni. Ég pantaði 3 flöskur til að sjá hvað þetta er…
Þú getur sótt listann í heild sinni með því að sækja þessa pdf-skrá.