Þegar þetta er skrifað sit ég á Arlandaflugvelli og bíð eftir flugi til Keflavíkur. Í flugstöðinni á Arlanda er veitingastaður sem heitir Scandinavian Tapas Bar, og þar fæst feiknagott rækjusmurbrauð. Ég fékk mér eitt slíkt og með því eitt glas af Petit Chablis 2010 frá William Fevre. Ég hef áður lofsamað hvítvínin frá William Fevre og það er engin ástæða til annars en að dásama þetta petit chablis. Það er mjög daufgult að sjá, frískur sítruskeimur með vott af hunangsmelónum, í munni nokkuð snörp sýra og góð fylling, eftirbragðið þó heldur í styttra lagi. Í heildina vel samsett vín sem smellpassar við rækjusmurbrauðið!