Það hefur verið frekar hljótt hér á Vínsíðunni að undanförnu og er þar ýmsu um að kenna. Ég hef verið önnum kafinn í vinnunni, verið á dálitlu flandri í tengslum við það og einnig verið upptekinn við að koma frá mér vísindagrein. Nú hefur heldur róast á þessu sviði og því hægt að halda áfram með vínrannsóknir! Mamma og pabbi hafa verið í heimsókn hjá okkur undanfarna viku og þau komu með Muga Rioja Reserva 2006, ákaflega gott Riojavín sem smellpassaði með nautasteikinni. Góður eikar- og leðurkeimur, smá vanilla og tóbak. Einkunn: 8,5 – Góð Kaup!
Einar Brekkan gaf mér flösku af Kyburg Cabernet Sauvignon 2008. Þetta vín er frá Stellenbosch-héraðinu í Suður-Afríku, lítill framleiðandi sem framleiðir einnig Merlot, Shiraz og svo blöndu af þessum þrúgum. Framleiðslan er aðeins nokkur þúsund kassar og mér hefur ekki tekist að finna neina umsögn um þessi vín hjá neinum af hinum þekktari víngagnrýnendum. Vínið er með góðan eikar- og tóbakskeim með smá súkkulaðitónum. Gott vín sem passaði vel með kálfa-entrecote. Einkunn: 8,5 – Góð Kaup.
Vínklúbburinn íslenski hélt árshátíð sína um síðustu helgi og að þessu sinni var þemað surf’n’turf. Veislan mun að vanda hafa tekist til vel og mig er farið að langa verulega mikið að komast í þessa veislu enda nokkuð mörg ár síðan ég tók síðast þátt. Litli vínklúbburinn í Uppsölum mun halda sína árshátíð um næstu helgi og þemað verður ítalskt, bæði hvað varðar mat og vín. Þetta verður góð upphitun fyrir úrslitaleikinn í Meistaradeildinni, verst að það er fyrirfram ákveðið hverjir eigi að vinna í ár (sorrý Smári og Dr. Leifsson).