Það virðist vera þrautinni þyngri að velja (og kaupa) húsvín samkvæmt okkar nýja sið, þ.e. kaupa kassa af víni í stað þess að kaupa kassavín. Helsta hindrunin hefur verið sú að ég hef ekki verið mikið heima síðan þetta var ákveðið, en einnig hefur gengið erfiðlega að velja vín. Það gildir að liggja yfir vöruúrvalinu, athuga hvað aðrir spekúlantar hafa um vínin að segja og finna hæfilegt gæði/verð-hlutfall. Ég þóttist heppinn þegar ég nú í vikunni fékk tölvupóst frá sænsku vefsíðunni Tasteline þar sem bent var á nokkur vín sem hægt væri að panta og áttu að vera góð kaup. Í dag átti svo að panta en auðvitað eru öll vínin uppseld hjá birgjunum – hvert eitt og einasta! Það verður því smá bið í viðbót en ég er reyndar á leið til Falun í kvöld og hef þá vonandi smá tíma til að liggja yfir þessu.