Húsvínið

Húsvínið hjá okkur hjónunum hefur löngum verið eitthvert kassavín, þó reyndar hafi ákveðin kassavín verið keypt mun oftar en önnur.  Gallinn við það af hafa kassavín sem húsvín er að ef manni líkar ekkert of vel við vínið þá tekur töluverðan tíma að klára úr beljunni, og síðustu droparnir enda oftast sem sósuvín eða til uppfyllingar í pastasósu.
Nú ætlum við hins vegar að söðla um.  Einar Brekkan hefur löngum haft þann háttinn á að hann prófar eitthvert vín (yfirleitt í verðflokknum kringum 90 SEK) og ef honum líkar vel við þá kaupir hann heilan eða hálfan kassa (þ.e.a.s. ekki kassavín heldur 6-12 flöskur) sem síðan er húsvínið næstu vikurnar.  Hann er nokkuð lúnkinn að finna góð vín og ábendingum frá honum er yfirleitt vert að fylgja eftir.
Síðasta húsvín var t.d. Meandro do Vale Meão 2008 frá Douro í Portúgal.  Þetta vín var reyndar í dýrari kantinum (159 SEK) en það kom reyndar á daginn að þetta vín fékk 92 punkta hjá Wine Spectator, og þegar það kom í ljós nú í upphafi vikunnar þá kláruðust allar birgðirnar í Systeminu!
Næsta húsvín hjá Einari skilst mér að verði Allegrini Valpolicella Superiore 2008, sem kostar 99 SEK og það er nóg til af því i Systeminu.  Við ætlum að skella okkur á það!

Vinir á Facebook