Þá er ljóst hvaða vín lentu í sætum 6 og 7 á topp-100 listanum.
7. Schild Barossa Shiraz 2007 – ástralskur shiraz, framleiddur í nokkuð miklu magni. 94 punktar og kostar ekki nema $20. Auðvitað ekki fáanlegt á Íslandi eða í Svíþjóð!
6. Paul Hobbs Pinot Noir Russian River Valley 2008 – Kaliforníupinot sem einnig hlaut 94 punkta, kostar $45 og er auðvitað ófáanlegt hér og heima (skyldi nokkurn undra?).
Það er spennandi að bíða eftir sigurvegaranum og ég hef aðeins verið að velta því fyrir mér hvaða vín lendi í efsta sæti, eiginlega meira en ég hef gert undanfarin ár, einhverra hluta vegna. Kannski vegna þess að ég varð nokkuð spenntur þegar ég las um Ruffino Modus 2007, sem fékk 96 punkta, er tiltölulega ódýrt og framleitt í sæmilega miklu magni (7000 kassar). Ég ætlaði að panta mér einn kassa en var tjáð að sala á víninu myndi ekki hefjast fyrr en í mars, þannig að ef það nær efsta sætinu verður nánast ómögulegt að nálgast það. Svo kemur auðvitað Dow’s 2007 púrtvínið sterklega til greina, en það fékk 100 stig, er ekki mjög dýrt og er sömuleiðis framleitt í sæmilega miklu magni (yfir 6.000 kassar). Þar á ég 3 flöskur í kæli og hlakka til að opna eftir nokkur ár! Hins vegar má ekki gleyma að kaninn er auðvitað hrifinn af sínum eigin vínum og líklega lenda vín á borð við Saxum James Berry Vineyard 2007 (98 punktar, $67, 950 kassar), Alban Syrah Edna Valley Alban Estate Reva 2006 (97 punktar, $74, 2300 kassar) og Peter Michael Chardonnay Sonoma County Ma Belle-Fille 2008 (97 punktar, $85, 2100 kassar) ofarlega á listanum. Château de Beaucastel Châteauneuf-du-Pape 2007 (96 punktar, $120, 15000 kassar) hlaut sína umsögn í desember 2009 og nær því kannski ekki inn á listann, en ef það er birtingartími umsagnarinnar sem ræður þá á það séns á að lenda ofarlega í ár, einkum þar sem það er framleitt í nokkuð miklu magni. En ég held að ég veðji á Modus eða púrtvínið mitt!