Pöntunin

Systembolaget bætti nokkrum nýjum tegundum í úrvalið í gær, en hér er þó um tímabundnar nýjungar að ræða – vín sem eru til í takmörkuðu magni og aðeins seld í ákveðnum búðum.  Sum þeirra er seld í rúmlega 30 búðum í Svíþjóð (2 í Uppsölum, þó ekki búðin mín), en svo eru nokkur sem eru bara seld í „kjallarabúðunum“ (búðir með miklu meira úrval og vínkæla fyrir bestu vínin)  í Stokkhólmi, Malmö og Gautaborg.  Ég var búinn að kynna mér það sem er í boði og í gærmorgun hafði ég strax samband við búðina mína, eftir að ég komst að því að það var ekki hægt að panta í gegnum netið.  Það vín sem ég er spenntastur fyrir er Brancaia Ilatraia 2007.  Ég hafði hugsað mér að panta 4 flöskur en þeir héldu nú ekki!  Þetta vín er til í mjög takmörkuðu magni og ég mátti því bara panta eina flösku.  Allt í lagi með það – ég pantaði þá 6 stk Barone Ricasoli Chianti Classico Castello di Brolio 2006.  Þetta vín lenti í 5. sæti á topp-100 lista Wine Spectator í fyrra og ég var eiginlega búinn að gleyma þessu víni, þar til ég uppgötvaði að það er til í 2 búðum hér í Uppsölum fyrir litlar 309 krónur sænskar.  Svo pantaði ég líka Sette Ponti Crognolo 2007, enn eitt Toscanavínið.  Þetta vín fékk 93 punkta hjá Wine Spectator en hin tvö fengu 96 punkta.
Ég var bara nokkuð sáttur við pöntunina og bað svo Keizarafrúna að panta eina Ilatraia til viðbótar handa mér.  Lítið mál, en hins vegar voru engin takmörk á því hvað hún fékk að panta!  Greinilega hægt að panta meira ef maður daðrar aðeins við sölumanninn.  Ég verð víst að sætta mig við að geta bara pantað eina flösku í einu af svona vínum, því ég ætla ekki að fara að daðra við hann Markús!

Vinir á Facebook